Author: kolbrunarskald
id““:““39vt5″“
Fátækt á þriðja og fjórða áratugnum. Seinni heimsstyrjöldin. Víetnam. Katrina. Blúsinn er kannski alltaf í grunninn pólitísk tónlist, einsog Angela Davis hefur viljað meina – tónlist frelsunar og félagslegrar pólitíkur hins persónulega – en hann einblínir samt fyrst og fremst á reynslu einstaklingsins og er sjaldan narratífur og hentar því illa í dæmisögur eða breiðar samfélagslýsingar eða mótmælasöng. Blúsinn fjallar ekki um það þegar allir vöknuðu kvenmannslausir í kulda og trekki, hann fjallar um það þegar ÉG vaknaði kvenmannslaus í kulda og trekki. En það eru samt tímabil hér og þar og einstakir listamenn sem voru og eru pólitískir. Einsog stundum fyrir þessar færslur gerði ég langan spilunarlista með helstu „pólitísku blúsunum“ og síðan raðaði ég lögunum eftir ártali til þess að fá einhvers konar yfirsýn yfir þróunina. Það sem blasti við voru fjórar kveikjur – kreppan, stríðið, Víetnam og Katrina. Auðvitað væri hægt að gera lista með einu lagi frá hverju ári ef maður vildi skoða þróun pólitíska blússins sem slíks en þá myndi maður missa af lægðunum, svo að segja. Það er líka áhugavert að fátæktarlögin á fyrsta tímabilinu byrja áður en kreppan skellur á. Nobody Knows You When You’re Down and Out er auðvitað þekkt og fjallar um fallvaltleika ríkidæmisins – ekki beinlínis neitt kommalag, þótt það sé frábært – og kemur út rétt fyrir hrunið 1929. En heilu ári fyrr gefur Bessie út Poor Man’s Blues þar sem fátæka konan snýr sér að ríka manninum og ákallar hann: While you livin’ in your mansion
You don’t know what hard time means
While you livin’ in your mansion
You don’t know what hard time means
Oh, workin’ man’s wife is starvin’
Your wife is livin’ like a queen
Sem er náttúrulega áminning um að þrátt fyrir allt grobbið og glitsið í kringum blúsinn á hinum hvínandi þriðja áratug fyrir kreppu var lítill jöfnuður meðal manna og bara fámenn klíka sem Jay Gatsby lífsstílnum. Ríkidæmið í kringum þær týpur er í sjálfu sér stundum lofsungið, en það undirstrikar líka óréttlætið að þeir sem fljóta upp úr fátæktinni inn í millistéttir, efri-millistéttir og hástéttir er allt hvítt fólk. Þá undirstrikar ríkidæmið líka bara hið almenna óréttlæti kapítalismans, að sumir eigi fullt og aðrir fátt. Söngkonur einsog Bessie virðast líka hafa lagt sig eftir því að syngja pólitísk lög allan þriðja áratuginn – í blábyrjun ferils síns, 1923, syngur hún til dæmis hið feminíska Sam Jones Blues. Þegar ódámurinn sem hefur farið illa með hana birtist við dyrnar syngur hún: I used to be your lawful mate
But the judge done changed my fate
Was a time you could-a’ walked right in
And call this place your home sweet home
But now it’s all mine, for all time
I’m free and livin’ all alone
Don’t need your clothes, don’t need your rent
Don’t need your ones and twos
Though I ain’t rich, I know my stitch
I earned my strutting shoes
Say, hand me the key that unlocks my front door
Because that bell don’t read Sam Jones no more, no
You ain’t talkin’ to Mrs. Jones
You speakin’ to Miss Wilson now Það eru ekki endilega fleiri örbirgðarblúsar eftir kreppu en fyrir – gítarblúsararnir sem tóku við af hinum fjölmennu og glitrandi vaudeville-sveitum voru vissulega fátækir og lifðu í kulda og trekki en þeir lifa líka til hliðar við hið breiða samfélag manna og litu ekki á sig sem málsvara eins eða neins, nema í besta falli dansgólfsins og lífsnautnanna (sem voru aðallega landi og konur). En þeir voru samt nokkrir og þar á meðal sá allra fallegasti blús sem ég hef nokkurn tíma heyrt og ég hef líklega deilt hér tvisvar nú þegar með höfundinum, Skip James, og kominn tími til að fá kover. Þetta er Buddy Guy á plötu frá 2004. Þá er ekki síður áhugavert að þótt kveikjurnar séu þarna á tilteknum tímabilum þá er ekki þar með sagt að öll lögin séu bara alltaf um Víetnam og kreppuna og stríðið og Katrínu – heldur er meira einsog þjóðfélagsstemningin kalli á tiltekna afstöðu til lífsins, að annað óréttlæti verði líka ljósara. Big Bill Broonzy semur t.d. When Will I Be Called a Man árið 1928 (en það kemur ekki út í hans útgáfu fyrren 55), sem fjallar um kynþáttahatur, og Billie Holiday gefur út Strange Fruit árið 1939 (með talsverðum erfiðismunum eftir að Colombia hafnar því), sem fjallar um aftökur á svörtum mönnum. Á árunum í kringum stríðið syngur Lead Belly Bourgeois Blues, Take This Hammer og Jim Crow Blues – ekkert þeirra fjallar um stríðið en svo á hann auðvitað líka Mr. Hitler.
En Lead Belly var gjarnan pólitískur og það voru t.d. Josh White og J.B. Lenoir líka, alveg sama hvenær maður kom að þeim. Josh White er sennilega einn af fyrstu alvöru dægurlagasöngvurum vesturlanda sem gerir hreinlega út á að vera pólitískur söngvari. Josh var prestssonur og kommúnisti frá suðrinu sem náði gríðarmiklum vinsældum í Bandaríkjunum og komst meira að segja í gott vinfengi við Roosevelthjónin á stríðsárunum – þau voru guðforeldrar sonar hans og nafna. Síðar syrti í álinn þegar McCarthyisminn hóf innreið sína í bandarískt samfélag og hann dregur sig mikið í hlé. Hann afneitaði kommúnismanum við nefndina, sagðist hafa verið leiddur á villigötur, en neitaði að gefa upp nöfn félaga sinna – sem var helsti gjaldmiðillinn ef maður vildi fá að lifa og starfa áfram óáreittur (í umræðu um svartlistun og „aflýsingu“ er gjarnan látið einsog það sé ekki ritskoðun nema maður hafi helst pappír upp á að maður hafi verið svartlistaður – eða að það eigi enginn frægð sína heldur sé hún forréttindi sem hægt sé að innkalla ef maður reynist ekki í húsum hæfur – bæði er að einhverju leyti satt og helbert kjaftæði, en fyrst og fremst er þetta allt grátt svæði). Í öllu falli hraktist White úr landi til Englands og var þar fram til 1955 – en sama ár kom þetta lag:
Free and Equal Blues er samið löngu fyrr og byggir á hinu fræga St. James Infirmary, sem enginn veit hver samdi, en Josh hafði sjálfur átt stóran smell með árið 1944. En textinn er ólíkt pólitískari – í stað þess að fjalla um mann sem finnur elskuna sína látna á spítala er það um mann sem fer á spítala og spyr lækni hvort blóðplasmi sem hann rekur augun í sé úr svörtum manni eða hvítum og læknirinn fer að útskýra að á slíku sé ekki nokkur munur. Forsendan er einföld og boðskapurinn didaktískur – fyrsta erindið kannski banalt – en svo tekur White á flug og textinn verður miklu brjálaðri (og nánast rappaðri) en í orginalnum: So I stayed at that St. James Infirmary.
(I couldn”t leave that place, it was too interesting)
But I said to the doctor, ”Give me some more of that scientific talk talk,” and he did:
He said, ”Melt yourself down into a crucible
Pour yourself out into a test tube and what have you got?
Thirty-five hundred cubic feet of gas,
The same for the upper and lower class.”
Well, I let that pass . . .
”Carbon, 22 pounds, 10 ounces”
”You mean that goes for princes, dukeses and countses?”
”Whatever you are, that”s what the amounts is:
Carbon, 22 pounds, 10 ounces; iron, 57 grains.”
Not enough to keep a man in chains.
”50 ounces of phosophorus, that”s whether you”re poor or prosperous.”
”Say buddy, can you spare a match?”
”Sugar, 60 ordinary lumps, free and equal rations for all nations.
Then you take 20 teaspoons of sodium chloride (that”s salt), and you add 38
quarts of H2O (that”s water), mix two ounces of lime, a pinch of chloride of
potash, a drop of magnesium, a bit of sulfur, and a soupֱon of hydrochloric
acid, and you stir it all up, and what are you?”
”You”re a walking drugstore.”
”It”s an international, metabolistic cartel.”
And that was news, yes that was news, Þetta sama ár, 1955, birtist svo Muddy Waters og svaraði spurningunni sem Big Bill hafði spurt á tónleikum 1928 (en ekki gefið út fyrren einmitt þetta sama ár líka), hvenær hann yrði kallaður maður, með laginu Mannish Boy. Einsog ég hef nefnt kemur óþolinmæðin með rafmagnsblúsnum – og skal engan undra. Útlegging Muddys var enda sú að hann skildi kallaður maður strax, umyrðalaust, og ekkert kjaftæði. Af því ég er búinn að spila það hérna áður (og allir þekkja það) læt ég nægja að spila stórgóða og afar ólíka útgáfu Jimis Hendrix frá 1967. Hippaárin eru gjöful þegar kemur að pólitískum blúsum. Það syngja næstum allir eitthvað um Víetnamstríðið – JB Lenoir er með Vietnam Blues (1965), John Lee Hooker með I Don’t Wanna Go To Vietnam (1968), Champion Jack Dupree með Vietnam Blues (1971), Lightnin’ Hopkins með Vietnam Wars Pt. 1 & 2 (1968) og hið frábæra Please Settle in Vietnam ári síðar. Þar harmar Lightning sannarlega stríðið en sér líka ákveðnar jákvæðar hliðar á því, með sínu eigin sérstæða Pollýönnunefi: My girlfriend got a boyfriend fighting
She don’t know when that man coming back home
I said I hope he’ll stay forever
Cuz I ain’t gonna leave that girl alone Og svo framvegis og svo framvegis; en það eru líka lög um annan harm og óréttlæti – Nine Simone er með nokkur geggjuð, t.d. Four Women (um örlög fjögurra kvenna) og Backlash Blues (um allra handa óréttlæti, m.a. Víetnam), Mimi og Richard Farina eru með Mainline Prosperity Blues („Well, companion, you’ll forgive me / if I seem unwilling to succeed“). Upp úr 1970 er svo að koma þreyta í mannskapinn og árið 1972 koma Little Feat með lagið A Apolitical Blues – sem Van Halen koveruðu á plötunni OU812 (sem er einmitt fyrsta platan sem ég átti á geisladisk og ég fékk að gjöf frá móðurbróður mínum, Tryggva Hübner, sem er heiðursfélagi í Blúsfélagi Íslands og einhver allra besti gítarleikari landsins). Lagið er einsog létt útlegging á forhippískum smelli Bítlanna, Revolution, þar sem Maó formaður hringir í ljóðmælanda en ljóðmælandi bara nennir ekki að tala við hann í dag. Þetta ku versti blús allra blúsa („that’s the meanest blues of all“) – að vakna ekki bara kvenmannslaus heldur þreyttur á samfélagsmálunum, algerlega ópólitískur, hugsanlega bara samviskulaus. Í útgáfu Little Feat upplifir maður þetta sem í senn grín og alvöru – það er eitthvað létt og skiljanlegt í því – en Van Halen útgáfan er einhvern veginn kaldari. Einsog Little Feat viti betur en að halda að maður þurfi að nenna Maó (eða Maóistum) til að vera pólitískur – á meðan Van Halen vilji bara skreyta sig með því að vera sama.
Stóru augljósu lægðirnar í pólitískum blúsum sýnast mér vera um miðjan fjórða áratuginn og frá stríðslokum og fram til 1960 – með þeim undantekningum þó að á þeim tíma er JB Lenoir á fullu, Muddy gefur út Mannish Boy og Floyd Jones kemur með verkalýðsblúsinn Stockyard Blues: Frá því um 1970 og hreinlega fram að fellibylnum Katrínu 2005 er fátt um fína drætti. Auðvitað eru lög – það eru alltaf lög og yfirleitt góð lög – en pólitískur blús er hvorki í tísku né nær hann máli að ráði. Stevie Ray koverar bítlalagið Taxman (með svolítið harðari beiskju), Louisiana Red semur Reagan is for the Rich Man, Sunnyland Slim tekur upp Be Careful How You Vote, Odetta koverar Jim Crow Blues eftir Lead Belly og RL Burnside á kombakk á bakinu á Jon Spencer’s Blues Explosion og gefur út hið æææææææææðislega og fullkomlega súrrealíska Tojo told Hitler.
Svo kemur 9/11 og fjórum árum síðar fellibylurinn og þá verður sprenging. Otis Taylor kemur með Rosa, Rosa (2002) og Ten Million Slaves (2003), Guitar Shorty er með We, The People (2006), Norman og Nancy Blake eru með Don’t Be Afraid of Neo-Cons (2006), Charlie Musselwhite með Black Water (2006), Watermelon Slim er með samnefnt lag ári síðar, BB King koverar Backwater Blues eftir Bessie Smith (sem fjallar um flóðin í Mississippi 1927, sem var algengt þema í blúslögum þá – má líka nefna When the Levee Breaks eftir Memphis Minnie, sem Led Zeppelin gerðu að sínu – en vísar auðvitað í Katrínu og New Orleans þegar BB tekur það), Derek Trucks tekur Band-lagið Down In The Flood (2009), Roy Zimmerman er með Chickenhawk (2006) og svo framvegis. Yfirsýn mín verður verri eftir því sem nær dregur samtímanum en ég held að botninn hafi svolítið dottið úr þessu upp úr 2010. Ég er ekki með neitt lag frá 2009 til 2018 – þegar Delgrés gefa út hina geðveiku Mo Jodi plötu þar sem meðal annars má finna Mr. President. 2019 gefur Gary Clark jr. (sem er kannski ekki minn tebolli þótt lagið venjist) út This Land. En í þessu grúski rakst ég líka á eitt lag eftir Corey Harris, sem ég hef haldið upp á þótt þetta lag hafi farið framhjá mér. Corey var í stóru hlutverki í fyrstu myndinni í fimm kvikmynda seríu Scorseses um blúsinn, Feel Like Going Home, og ég uppgötvaði hann fyrir 1-2 árum í gegnum kover af God Don’t Ever Change eftir Blind Willie Johnson. Nánast í þessum orðum skrifuðum renndi ég yfir lagalistana á síðustu plötum hans – af því ég hef fylgt honum á Twitter og veit hann er pólitískur þótt ég hafi lítið spáð í það í tengslum við lögin (mest hlustað á koverin hans) – og þá bara birtist þetta og ég hlustaði á það og ég get svoleiðis svarið það að mér lá við að fara grenja. Það er greinilega nýbúið að hlaða laginu upp á YouTube en það er tveggja ára gamalt af plötunni Free Water Way. AUKAEFNI: Listinn – og hlekkur á playlistann á Spotify . Ég hefði getað tiltekið miklu fleiri lög frá bissí árunum – en mjög lítið fleira frá lægðarárunum. 1923 Sam Jones Blues – Bessie Smith 1928 Poor Man’s Blues Bessie Smith 1928 When Will I Be Called a Man – Big Bill Broonzy (tekið upp 1955) 1929 (What Did I Do to Be So) Black and Blue Louis Armstrong 1930 When the War Was On – Blind Willie Johnson 1931 orginall, 2004 með Buddy – Hard Time Killing Floor Buddy Guy 1937 Bourgeois Blues Lead Belly 1939 Strange Fruit Billie Holiday 1940 Take This Hammer Lead Belly 1940 Jim Crow Blues Lead Belly 1941 Southern Exposure Josh White 1941 Uncle Sam Says – Josh White 1942 Mr. Hitler Lead Belly 1943 War Song Buster Brown 1947 Stockyard Blues Floyd Jones 1951 Black, Brown and White Big Bill Broonzy (samið 45) 1954 Eisenhower Blues – J.B. Lenoir 1954 I’m in Korea J.B. Lenoir 1954 Livin’ In The White House J.B. Lenoir 1955 Free & Equal Blues (samið 40ogeitthvað) – Josh White 1955 Mannish Boy Muddy Waters 1960 Democrat Man – John Lee Hooker 1963 Red’s Dream – Louisiana Red 1965 No Payday Here J.B. Smith 1965 Vietnam Blues J.B. Lenoir 1965 Mainline Prosperity Blues Mimi And Richard Farina 1966 Four Women – Nina Simone 1967 Backlash Blues – Nina Simone 1967 Politician – Cream 1968 Big Boss Man – Jimmy Reed 1968 I Don’t Wanna Go To Vietnam John Lee Hooker 1969 Please Settle in Vietnam Lightnin’ Hopkins 1969 Vietnam T-Bone Walker 1969 Poor Moon – Bonus Track Canned Heat 1969 Why I Sing the Blues – BB King 1970 This is not a song, it’s an outburst: or the establishment blues – Rodriguez 1972 A Apolitical Blues Little Feat (líka til með Van Halen!) 1983 Reagan is for the Rich Man – Louisiana Red 1986 Taxman – Stevie Ray Vaughan 1989 Be Careful How You Vote – Sunnyland Slim 1996 Tojo Told Hitler R.L. Burnside 2001 Jim Crow Blues Odetta 2002 Ten Million Slaves Otis Taylor 2003 Rosa Rosa – Otis Taylor 2004 The Problem – JJ Cale 2006 Waves Of Grain Two Gallants 2006 We The People Guitar Shorty 2006 Don’t Be Afraid Of the Neo-Cons Norman Blake, Nancy Blake 2006 Chickenhawk Roy Zimmerman 2006 Black Water Charlie Musselwhite 2007 Bring The Boys Back Home David Evans 2007 Jesus And Mohammed Candye Kane 2007 You Don’t Really Wanna Know Charlie Wood 2008 A Time For Peace Eddy Clearwater 2009 Dubb’s Talkin’ Barnyard Blues Doug MacLeod 2009 Down in the Flood – Derek Trucks 2018 Mr President Delgres 2018 I Can’t Breathe – Corey Harris
2019 This Land – Gary Clark Jr.
id““:““8mkdg““
Um þriðjungur mannkyns mun hafa fengið spænsku veikina á sínum tíma í fjórum bylgjum og á bilinu 17-50 milljónir manns féllu í valinn. Faraldurinn hófst árið 1918 og stóð til 1920, þegar fyrsta blúsbylgjan hófst fyrir alvöru með Crazy Blues með Mamie Smith. Í ljósi þess að blúsinn er í grunninn alþýðutónlist og sem slíkur topikal – þ.e. hann fjallar um það sem er í deiglunni, um örlög starfsmanna á plani og plantekru – þá vekur athygli að tiltölulega fá lög fjalla um þennan ofsalega flensufaraldur. Að vísu dóu þá nokkuð færri í Bandaríkjunum en víða annars staðar – á bilinu 500-850 þúsund manns (miðað við 200 þúsund af Covid þegar þetta er skrifað) eða 0,5-0,8% af heildarmannfjöldanum – en margir veiktust og einn af hverjum 200 er heldur ekki ekki-neitt. Eðlilegasta útskýringin held ég að sé sú að fyrsta áratuginn eða svo – áratug blúsdrottninganna svonefndu – var blúsinn alls ekki alltaf harmrænn. Það var meiri áhersla á hedónisma og ákveðið siðleysi – og tónlistin var lækning við bláma sálarinnar, aðferð til þess að reka hina svörtu hunda á brott, frekar en einfaldur harmsöngur. Einsog Ida Cox söng: „Wild women don’t worry / wild women don’t get no blues“. Þegar að hinir þunglyndari gítaristar mæta á svæðið til að segja sínar sögur er flensan einfaldlega gleymd og grafin undir fargi nýrra harmleikja – Mississippi áin flæðir yfir bakka sína, ofbeldi Jim Crow tímabilsins og Ku Klux Klan er í algleymingi, kreppan er hafin og brauðstritið þrúgandi. Það voru aðrar sögur sem þurfti að segja. Önnur útskýring er að blúsinn er gjarn á að fjalla um hið sértæka frekar en hið almenna. Þannig er nóg til af blúslögum um sjúkdóma – Blind Lemon syngur í Pneumonia Blues að hann sé kominn með lungnabólgu af því að standa úti og bíða eftir ástinni sinni sem aldrei kemur; Bukka White syngur í High Fever að hann fari til læknisins til að kvarta undan sótthita en læknirinn segir að hann sé bara ekki nógu duglegur að fá sér knús; Victoria Spivey er vinalaus með berkla í TB Blues; Memphis Minnie er nær dauða af lífi af heilahimnubólgu í Meningitis Blues – en giska fá um faraldra. Þriðja útskýring er einfaldlega að gospeltónlistin – sem var gjarna stillt upp sem andstæðu blússins – átti sterkara tilkall til frásagna um veikindi og dauða. Þegar að blústónlistarfólk syngur um almennar flensur og veikindi, feigð og dauðalegu, er það yfirleitt að syngja gospel – með sínu nefi, en samt. Það vill síðan til að þessi togstreita milli blúss og gospels, drottins og syndarinnar, dauðaþrárinnar og lífsnautnarinnar markaði líf margra blústónlistarmanna og þess vegna eigum við lög einsog John the Revelator með Son House (sem predikaði jafnvel milli laga og fyrirvarð sig fyrir að vera annars að spila sína djöfullegu músík): Lagið John the Revelator er alþýðugospel sem Blind Willie Johnson var fyrstur til að taka upp. Um Blind Willie má það segja að hann er ýmist kallaður blús- eða gospeltónlistarmaður. Mér vitanlega söng hann aldrei um lífsins yndissemdir eða dásamaði syndina – öll hans lög fjalla um dýrð drottins og textarnir eru príma gospel. En hann spilar þau í stíl sem er ekki hægt að kenna við gospel með góðu móti – til þess er of mikið af blúsnótum, of mikill andskoti í röddinni. Ég á ekki við að hann sé ekki gospeltónlistarmaður – bara að hann sé augljóslega ekki ekki blústónlistarmaður líka. Og Blind Willie er þess vegna sá eini sem ég hef getað fundið frá þessu tímabili sem syngur um inflúensufaraldurinn (sem slíkan). In the year of 19 and 18, God sent a mighty disease. It killed many a-thousand, on land and on the seas. Well, we done told you, our God’s done warned you, Jesus coming soon. We done told you, our God’s done warned you, Jesus coming soon. Great disease was mighty and the people were sick everywhere. It was an epidemic, it floated through the air. Well, we done told you, our God’s done warned you, Jesus coming soon. We done told you, our God’s done warned you, Jesus coming soon. The doctors they got troubled and they didn’t know what to do. They gathered themselves together, they called it the Spanishin flu. Well, we done told you, our God’s done warned you, Jesus coming soon. We done told you, our God’s done warned you, Jesus coming soon. Seinna í sama lagi koma svo línur sem einhverjum gætu þótt kunnuglegar í dag: Well, the nobles said to the people, ”You better close your public schools.” ”Until the events of death has ending, you better close your churches too.” We done told you, our God’s done warned you, Jesus coming soon. Fyrir þá sem eru hrifnari af Cowboy Junkies er líka til fín útgáfa af þessu lagi með þeim – af plötu þar sem ýmsir samtímamenn okkar votta Blind Willie virðingu sína , þar á meðal Tom Waits, Sinead O’Connor og Lucinda Williams. Blind Willie er raunar tíðrætt um spænsku veikina – og syngur líka um hana í uppáhalds laginu mínu með honum, God Don’t Never Change („God in the time of sickness / god and a doctor too / in the time of influenza / he truly was a god to you“). Besta inflúensulagið er hins vegar sungið af annars óþekktri söngkonu sem heitir Essie Jenkins. 1919 Influenza Blues. Ég hef verið að reyna að grafast eitthvað fyrir um hver hún var og komist litlu nærri (ég hef meira að segja lagt inn fyrirspurn á twitter til Ted Gioia, sem er einhver ofsalegasti blúsfræðingur samtímans). Lagið er að hluta til eftir hana sjálfa og tekið upp 1962 og gefið út af Arhoolie útgáfunni árið 1965. Essie er sjálf sennilega fædd 1931 og dó þá í ár – 25. febrúar, rétt í upphafi kórónafaraldursins. En þetta eru getgátur. Lagið er, einsog mörg blúslög, byggt á eldra lagi sem heitir Memphis Flu frá 1930 og er eftir mann sem kallast Elder David Curry. Lag Currys fjallar hins vegar um seinni flensufaraldur sem gekk yfir árið 1929 – og er nánast samhljóma laginu Influenza sem Ace Johnson söng fyrir þjóðfræðinginn John Lomax 1939. Þegar Essie snýr upp á það fjallar það hins vegar um spænsku veikina 1919. It was nineteen hundred and nineteen;
Men and women were dying,
With the stuff that the doctor called the flu.
People were dying everywhere,
Death was creepin’ all through the air,
And the groans of the rich sure was sad. Það er eitt og annað áhugavert að gerast í þessum texta. Eitt af því sem skilur harm flensunnar frá öðrum harmi og dauða á þessari gullöld harmsins er að flensan gerir ekki mannamun – einsog Bjarni Ben benti á erum við öll í sama bátnum (samt ekki, ekki varðandi aðrar afleiðingar – og ég veit ekki hvernig það var þarna 1919 en kórónaveiran leggst harðar og verr á fátækt fólk og jaðrað, af ýmsum ástæðum). Þórðargleðin leynir sér ekki þegar Essie syngur um kvein hinna ríku – loksins mega helvítin þjást með okkur hinum. Well it was God’s almighty plan,
He was judging this old land,
North and south, east and west,
It can be seen,
He killed the rich, killed the poor,
And he’s gonna kill some more,
If you don’t turn away from the shame. En í grunninn er auðvitað leiðinlegt að við séum að drepast svona fyrir tímann og eina leiðin til þess að komast hjá því er að við snúum baki við skammarlegum lífsháttum okkar. Hér bergmálar líka orðræða umhverfisverndarsinna og grænkera frá því í vor – að við getum sjálfum okkur um kennt að éta kjöt (kórónaveiran kemur úr kjötvinnslu) og með henni létti þunganum af móður jörð (við fljúgum minna, keyrum minna o.s.frv.). Allt slæmt sem kemur fyrir okkur er í grunninn afleiðing af gjörðum okkar – við erum sjálf hið vonda í heiminum. Þegar ég kópípeistaði textann tók ég eftir að sá sem skrifaði hann upp hafði skrifað „it killed the rich“ o.s.frv. frekar en „he killed the rich“. Það fannst mér áhugaverð misheyrn. Því hjá Essie fer ekkert á mili mála að það er ekki flensan sem drepur okkur – það er Drottinn sem drepur okkur. Flensur don’t kill people, God kill people, einsog segir í orðskviðunum. Down in Memphis, Tennessee,
The doctor said it soon would be,
In a few days influenza would be controlled.
Doctor sure man he got had,
Sent the doctors all home to bed,
And the nurses all broke out with the same. Það er alveg sama hvað læknarnir rembast. Loforð um sóttvarnir og bóluefni eru til einskis. Dauðinn kemur og sækir hina feigu. Influenza is the kind of disease,
Makes you weak down to your knees,
Carries a fever everybody surely dreads,
Packs a pain in every bone,
In a few days, you are gone.
To that hole in the ground called your grave. Og þannig er það nú bara. AUKAEFNI Influenza með Ace Johnson. Það hafa oft komið upp dellur í blúsnum – í kjölfar TB Blues Victory Spivey hér að ofan komu ótal margir berklablúsar. Það eru nú nokkur ár á milli þessara lungnabólgublúsa Blind Lemons, Big Bill Broonsy og Lightnin’ Hopkins, en það hlýtur samt að mega kalla þetta dellu. Og auðvitað verður enginn veikur einsog Skip James. Bukka White er ekkert lasinn – hann þarf bara að fá smá ást. Hér eru Cowboy Junkies með Blind Willie Johnson lagið sem var hér að ofan líka. Memphis Minnie er bókstaflega við dauðans dyr. Nú erum við kominn til samtímans. Ágætis kassagítarsblús frá Lane Steinberg. Þetta er einhvers konar indí-blús. Jonas Alaska er norskur „folk“ tónlistarmaður. Maður þarf ekki að horfa mjög lengi á þetta til að sjá hver hans helsta fyrirmynd er. Að lokum er það auðvitað minn maður. Ginsberg er veikur og nær honum ekki upp – sennilega er það slæma karmað eftir að hafa riðið öllum sætu strákunum.
id““:““b3e5c““
Ég er með höfuðverk. Sennilega er það svarti dauði. Ef ekki eitthvað þaðan af verra. Það er ekki alveg jafn sumarlegt og var hérna á helginni. Skýjað en hlýtt. Ég er að ýta á undan mér að senda frá mér stóran reikning. Af því þegar ég hef gert það þarf ég að snúa mér að skáldsögunni minni. Þeirri sem kemur sennilega ekki út fyrren í fyrsta lagi 2023 eða 2024 jafnvel. Þá hef ég enga afsökun lengur og er bara byrjaður að fresta út í loftið. Það tekur ekki nema tíu mínútur í mesta lagi að ganga frá reikningnum. En meðan ég á það ógert er það hann sem ég er að fresta og ekki bókin. *** Eiríkur nafniminn Guðmundsson bað Hallgrím Helgason afsökunar í útvarpinu í gær. Það var þá þriðja afsökunarbeiðnin, skilst mér – sú fyrsta var prívat fyrir sex árum. Önnur var á Facebook og þriðja núna í útvarpinu. Eftir því sem mér best skilst tók Hallgrímur fyrstu afsökunarbeiðninni og síðan þeirri annarri og nú hefur hann tekið þeirri þriðju – sem hann kallar samt snautlega og nefnir Eirík í sömu mund og Samherja. Eiríkur gerði sem sagt atlögu að Hallgrími, alveg einsog Samherji, með því að skrifa pistil fyrir sex árum hvers innihald var harðorð gagnrýni á sjálfhverfu rithöfunda (sem höfðu hver á fætur öðrum stokkið til og skrifað skáldævisögu sömu jólin – beint í kjölfar sigurgöngu Knausgaards á ensku). Hallgrímur talar um að hann hafi ekki beðið um þriðju afsökunarbeiðnina heldur viljað að Víðsjá brygðist „mannalega“ við – sem maður hlýtur að skilja svo að það hafi átt að reka Eirík. Eða kannski gera sérþátt um það hvers vegna mætti ekki fjalla um bókmenntaverk í menningarþætti nema af ítrustu nærgætni? Þetta er eiginlega sprenghlægilegt. Og minnir mig reyndar á það sem gerðist þegar Ebba Witt-Brattström skrifaði pistil í sænskt dagblað þar sem hún vitnaði í ritgerð kollega síns við Helsinkiháskóla um barnagirnd í verkum Karls Ove Knausgaard (eða unglingagirnd – girnd miðaldra karls í unglingsstúlkur – sem Knausgaard hefur bæði fjallað um í illa dulbúnum skáldsögum og ódulbúið í skáldævisögum). Karl Ove, sem öðlaðist heimsfrægð meðal annars fyrir að berhátta alla í kringum sig og delera um eðli þeirra (við miklar skammir), varð feykireiður og spurði hvort Ebba gerði sér ekki grein fyrir því að hann ætti börn sem væru að komast á þann aldur að þau gætu séð blöðin og ættu ekki að þurfa að lesa svona um pabba sinn? Það held ég reyndar fólkið sem Hallgrímur hefur sært með skrifum sínum í gegnum tíðina standi í röðum og bíði eftir afsökunarbeiðni frá manninum sem eitt sinn varð á orði að valið stæði milli þess að vera „góð manneskja“ og „góður rithöfundur“, þegar hann þurfti að réttlæta það fyrir sér að hafa orðið minningu látinnar konu til skammar. Ég varði hann í því máli og stend enn við það – skáldskapurinn verður að leyfa sér ýmislegt. En það gilda ekki sérreglur um Hallgrím Helgason og það sem maður ber á torg í verkum sínum verður maður að þola að sé rætt á torgum og staðreyndin er sú að þótt Eiríkur Guðmundsson hafi vitnað í ruddalegan texta í sinni umfjöllun þá skrifaði hann ekki umræddan texta og tók ekki undir þann gildisdóm sem í honum fólst heldur fordæmdi. Það sem hann hins vegar gerði – og fellur undir heiðarlega menningarkrítík – var að spyrja hvort þessi sjálfhverfa (í Hallgrími og fleirum) væri afurð þess sensasjonalíska samfélags sem þarf alltaf stærra og meira kikk. Ég held að svarið við þeirri spurningu sé tvímælalaust já. *** Ég hljóp aðeins í gær. Bara örlítið. Kálfinn þoldi það alveg en ég tók líka ekkert á. Svo veit ég ekkert hvort ég á að kalla þetta „verk“ eða „sársauka“. Mér skilst það sé alveg eðlilegt að maður finni aðeins til – bara á meðan það sé ekki „sársauki“, þá eigi maður að hætta strax. *** Ég hef fengið tvö boð í bólusetningu á Íslandi en gengur ekkert að fá tíma hér úti í Svíþjóð. Sem er bölvanlegt. Ef það eru sex vikur á milli sprauta þarf ég að fara að fá þetta í gegn ef ég á að vera fullbólusettur þegar við förum heim – sem myndi auðvelda allt (sök sér að fara í sóttkví heima – verra ef ég þarf að sitja í tíu daga sóttkví í Danmörku á leiðinni, því við eigum miða með Norrænu). *** Ég las Snöru eftir Jakobínu Sigurðardóttur. Eða reyndar las Arnar Jónsson hana. Ég hlustaði. Merkileg bók. Bæði frásagnaraðferðin (allur textinn er annar hlutinn af samræðu – allt sem einn maður segir, en ekkert af því sem hinn segir á móti) og textinn – Jakobína hafði næmt eyra fyrir talmáli og það má furðum sæta að textinn gangi upp í þessu formi, sem virkar svo brothætt. *** Plata vikunnar er tvenna einsog síðast, en nú tveir karlar. Tommy Johnson, jóðlarablúsarinn – og Sleepy John Estes, vælarablúsarinn. Frægustu lög Tommys eru Canned Heat Blues (sem hljómsveitin er nefnd eftir) og Cool Drink of Water Blues, með hinni frægu og síendurómandi línu „I asked for water but she gave me gasoline“ (sem Howlin’ Wolf gerði að sinni). Það var alls ekkert óvenjulegt að blúsarar jóðluðu á þessum tíma. Þótt það hefði verið eitthvað um jóðl í vaudeville-sýningum áratugum saman voru það fyrst og fremst vinsældir köntrísöngvarans Jimmy Rodgers sem varð mönnum einsog Tommy Johnson innblástur að sínu jóðli. Sleepy John Estes var einsog Tommy fæddur upp úr aldamótum. Hann var blindur á öðru auga. Á sínum yngri árum vann hann allan daginn og djammaði og spilaði blús allar nætur og átti það til að sofna á sviði og fékk þess vegna viðurnefnið Sleepy John. Hans langfrægasta lag er Diving Duck Blues, sem meðal annars Taj Mahal og Johnny Winter koveruðu – og Keb’ Mo og Taj Mahal tóku líka saman í kassagítarsútgáfu á nýlegri plötu. Tommy Johnson er sá sem djöflamýtan var fyrst sögð um – að hann hefði selt sálu sína á krossgötunum – sem var síðar færð yfir á Robert Johnson. Hann kemur líka fyrir í bíómyndinni O, Brother Where Art Thou (leikinn af Chris Thomas King). Hann tók ekkert upp eftir 1930 og lést 1956 (eftir tónleika) en Sleepy John lifði til 1977 og náði þar með að vera með í blúsendurreisnarstemningu sjöunda áratugarins og tók þá upp nokkrar plötur til viðbótar.
createdTimestamp““:““2024-06-09T05:31:44.326Z““
Ég hef verið duglegur að viða að mér bókum upp á síðkastið. Keypti nokkrar fyrir mánaðamót, þegar ég kom að utan, og er einhvern veginn bara búinn á því núna. Fjárhagslega, meina ég. Þetta eru einar sjö bækur sem ég hef keypt og það er bara nóg til að buga mann. Meðalverðið er kannski 5.500 – dýrasta 7.000 og ódýrasta um 4.000. Ég hef líka farið á bókasafnið núna og fengið tvær gefins frá forlagi (enda áhrifavaldur!) en ég þarf annað hvort að bíða með að kaupa fleiri eða reyna að gera einhverja skiptidíla með gömlu bækurnar mínar. Mig langar að lesa eins mikið úr flóðinu og ég kemst yfir en það stýrist sennilega héðan af mikið af því hvað er inni á bókasafninu. Nema hvað. *** Ef ég ætti að mæla með einni bók fyrir jólin, af þeim sem ég hef lesið, myndi það vera Vetrargulrætur eftir Rögnu Sigurðardóttur. Þetta er smásagnasafn – með sögum í lengra laginu held ég, um 50 síður hver. Þrjár þeirra fjalla um myndlistarkonur (og myndlistarsamfélagið, fagurfræði) á 20. öld, ein um leikskólastarfsmann í samtímanum og ein um blindan sveitarómaga á 18. öld. Þetta er kannski ekki frumlegasti eða mest brútal textinn – þeir sem hafa bara lesið Borg eftir Rögnu myndu sennilega verða hissa, en það er svo sem langt síðan hún skipti um stíl (einsog konan í smásögunni sem yfirgefur abstraktlistina fyrir hið figuratífa) – en hann er einhvern veginn gegnumlýsandi í viðkvæmni sinni, kraftmikill í tipli sínu. Ég er ekki viss um að það sé höfundur á Íslandi í dag sem „leynir jafn mikið á sér“ og Ragna – maður veit einhvern veginn varla hvar það gerist að sögurnar ná taki á manni, þetta er svo látlaust og í raun gerist svo fátt fréttnæmt, en svo alltíeinu er maður allur kominn í hnút. Kona sem vinnur á leikskóla missir sjónar á einu leikskólabarni og alltíeinu er það orðið að hálfgerðum gotneskum hryllingi – sveitarómagi fær perutré á heilann og einhvern veginn kjarnar það alla fátækt og utangarðsmennsku. *** Þetta var góð bókavika. Okfruman er fyrsta ljóðabók Brynju Hjálmsdóttur, gefin út af Unu Útgáfuhúsi sem hóf feril sinn bara í fyrra, held ég, með endurútgáfu á endurminningum byltingarmannsins Hallgríms Hallgrímssonar. Kannski var það meira að segja bara í vor? Allavega. Brynja er nú samt ekki ljóðelskum ókunnug. Hún hefur birt hér og þar í tímaritum , lesið upp úti um hvippinn og hvappinn og stýrt, ásamt Fríðu Ísberg, vinsælu ljóðapoddkasti. Okfruman er óstýrilát bók – hefði hugsanlega mátt vera óstýrilátari en mér finnst það nú reyndar næstum alltaf, þegar ég á annað borð er kominn á bragðið. Ég er almennt á því að stærsti löstur ljóðskálda sé að pússa alla matta fleti og agnúa af ljóðum sínum svo stemningin verður meira einsog á marmaragólfinu í nýskúruðum banka en á vinalegri stöðum, þetta er krafan, hugmyndin um ljóðið sem þessa glansandi fullkomnun frekar en hina lífrænni og (aðmérfinnst) eðlilegri heild. Okfruman er blessunarlega laus við þetta – hún heldur utan um kaosið sitt, nostrar við það, beislar subbuskapinn án þess að ýkja hann. Æðisleg bók, æðisleg ljóð, æðislega uppsett (ég veit það er erfitt fyrir suma að lesa smátt letur, en mikið er það fallegt), æðislegar myndir og myndljóð. *** Mér fannst Agnes Joy ekki jafn rosalega stórkostleg og öllum hinum sem voru með mér í bíó – en það er nú samt rými þar til þess að hafa fundist hún ansi góð enda áttu sumir hreinlega erfitt með andardrátt af hrifningu. Ég er reyndar farinn að venjast því að það komi varla út ný íslensk bíómynd án þess að helmingurinn af fólkinu í kringum mig – yfirleitt sama fólkið, aftur og aftur – lýsi því yfir að NÚNA sé íslensk kvikmyndagerð búin að slíta barnsskónum og NÚNA hafi verið búin til bíómynd sem slái öll met í fagurfræðilegum gæðum. Að því sögðu er Agnes Joy skemmtileg mynd og stemningin í henni skemmtilega öðruvísi – þótt ekki væri nema bara fyrir sögusviðið, Akranes, sem er alveg ofan í borginni án þess að vera í borginni. Að vísu er enn þarna klisjan um sollinn í borginni versus hreinlífið í sveitinni, sem íslensk kvikmyndagerð (og raunar útlensk líka) virðist seint ætla að hrista af sér. Söguþráðurinn er dásamlega mikið kaos (altso, hún fjallar um kaos, sagan er frekar línulega sögð og án mikilla hiksta) og leikur og tónlist eru góð. Mér fannst kvikmyndatakan kannski ekki endilega neitt frábær en kannski hef ég heldur ekkert vit á því og kannski geldur hún fyrir að síðasta íslenska mynd sem ég sá – Hvítur, hvítur dagur – er svo brjálæðislega vel tekin, það er hennar stærsti styrkur. Agnes og mamma hennar eru rosalega vel skrifaðir karakterar og Katla Margrét og Donna Cruz eiga frábæran leik. Þorsteinn Bachmann sem pabbinn var líka frábær – kannski ekki jafn frábær heilt yfir en svo gersamlega rústaði hann nokkrum senum (ég meina rústa jákvætt), til dæmis þegar hann er hress á fylleríi. Björn Hlynur var sannfærandi án þess að fara mikið umfram það og Króli skilaði sínu vel og hafði sína þægilegu nærveru og sjarma. Eitt truflaði mig við söguþráðinn. Það er svolítið mikið reynt að pakka þessu saman í lokin og af og til eru útúrdúrar sem virka einsog pólitísk köll frekar en eitthvað sem eigi heima þarna. Það er ekki endilega alltaf galli – mér fannst til dæmis alltílagi að mamman lýsti sig andvíga því að fá til leiks starfsmannaleigur á vinnustað sínum. En það var fullmikið af því góða þegar hún hafði í endann búið svo um hnútana að það yrðu aldrei notaðar starfsmannaleigur – ég átta mig ekki einu sinni á því hvernig hægt er að búa svo um hnútana í kapitalísku þjóðfélagi og svo var augljóst á öllum senum af þessum vinnustað og fundum að mamman réði ekki neinu þarna. Svo bara alltíeinu réð hún öllu þegar hún var að hætta. Eitt nittpikk: í byrjun myndarinnar er keyrt framhjá frystihúsi. Þar stendur lítill hópur kvenna í vinnslugöllum. Maður sér fyrir sér að þær eigi að vera úti í smók eða eitthvað álíka – kannski bara að fá sér frískt loft. En ég held það séu áreiðanlega 20 ár frá því það var tekið fyrir það að starfsfólk í matvælavinnslu færi út í göllum, með svuntur og hárnet og allesammen. *** Önnur Katla. Between Mountains var að gefa út sína fyrstu breiðskífu – samnefnda sveitinni, sem ég held reyndar að sé bara Katla Vigdís, núorðið, Vernharðsdóttir, milli næstu fjalla í Súgandafirði. Eitthvað held ég reyndar að hún sé með af fólki sér til halds og trausts og þarf ekki alltaf að sækja það langt – bræður hennar eru báðir tónlistarmenn og pabbi hennar er bassa- og gítarleikari til hundrað ára úr hundrað hljómsveitum, hljóðmaður, eigandi Stuð ehf. og ég veit ekki hvað og hvað. Mér finnst einsog ég hafi séð það einhvers staðar á samfélagsmiðlum að þeir hafi eitthvað sessjónspilað á plötunni. Lögin eru flest drifin áfram af annað hvort lyklum eða gítar – útsetningarnar eru ísmeygilegar, marglaga og stundum óvæntar án þess að hljóðfærin þvælist neitt hvert fyrir öðru. Mér er meinilla við að segja að þær séu „smekklegar“ af því „smekklegt“ er svo æðislega mikil klisja í tónlist (og ég er líka hrifinn af því sem er svolítið ósmekklegt) en sennilega eru þær einmitt smekklegar. Frábærir textar, frábærar melódíur. Það er líka klisja að nefna það en það er auðvitað algert rugl að Katla sé – ég held hún sé sautján ára. Og löngu búin að vinna Músíktilraunir, auðvitað. Uppáhaldslögin mín eru fyrsta og síðasta – Open Grounds og What Breaks Me. *** Kvikmyndaklúbbur unga fólksins horfði á Hótel Transylvaníu. Aino valdi og Aram var fjarverandi í hrekkjavökuveislu. Við höfum séð hana áður einhvern tíma. Í grunninn fjallar sagan um hinn ofverndandi föður – mann sem byggir mikinn kastala til að vernda dóttur sína fyrir hinu ókunna. Sem er auðvitað útlendur maður – afmeyjarinn, ástin eina. Pabbinn lærir svo að það er ekkert að óttast þótt litla stelpan hans verði fullorðin og vingast við útlenda manninn, tekur hann inn í fjölskylduna. Missir ekki dóttur heldur eignast son. Nema með vampírum og frankensteinum og þannig. Fínir sprettir en söguþráðurinn kannski doldið mikil klisja. *** Une Misère sendu frá sér nýja plötu – Sermon. Sú á undan, 010717, hét 39 ára afmælisdeginum mínum. Sennilega er það útgáfudagurinn. Ég sá sveitina spila á Aldrei fyrir nokkrum árum – þetta er eitthvert rosalegasta live-band sem ég hef séð. Krafturinn – sem er auðvitað undirstaðan í öllum metal – er engu líkur. Hann skilar sér að miklu, en ekki öllu leyti, á þessari plötu. Sennilega gæti maður komist nálægt því með því að stilla svo hátt að veggir fari að hristast en það er kannski ekki forsvaranlegt þegar maður á nágranna og svona. Ég er ekki viss um að Gylfi og Tinna tækju því neitt æðislega vel. En þetta er klassametall af hörðustu tegund. Eftir því sem harkan í metal eykst verður samt alltaf erfiðara að halda hinu melódíska og/eða athygli hlustandans sem sækist eftir fleiru en bara orkunni (á tónleikum heddbangar maður og lendir í trans – heima hjá sér er maður yfirleitt að sinna öðru samtímis, einsog að blogga). Une Misère er ekki mjög melódísk sveit en þeim mun rytmískari – það er í taktinum, taktskiptum, keyrslu og slökun, sem maður fær kikkið sitt svona heima með heddfónana. Ég sá á samfélagsmiðlum að margir féllu fyrir henni alveg strax í fyrstu hlustun en ég var ekki almennilega kátur fyrren í annarri og þriðju hlustun – kannski vegna þess að ég hafði eiginlega ekkert hlustað á fyrri plötuna og hafði miklar væntingar eftir þessa tónleika um árið. Sermon og Between Mountains komu út sama dag – 1. nóvember. Og þann sama dag kom líka ný plata frá Grísalappalísu, sem ég er bara rétt byrjaður að hlusta á en virkar ekki minna frábær (sennilega meira um það í næstu viku). Rosalegur dagur fyrir íslenska tónlist. Besta lagið á Sermon – hingað til – finnst mér vera Burdened-Suffering. *** Ég fór í bíó á Motherless Brooklyn. Ísafjarðarbíó bauð mér og Nödju frítt og gaf okkur meira að segja popp og kók með því. Ekki vegna þess að ég sé áhrifavaldur, sem ég er samt, heldur vegna þess að ég þýddi bókina sem myndin er byggð á. Það var að eigin frumkvæði og hún átti upphaflega að koma út hjá forlaginu Traktor, sem Snæbjörn Arngrímsson hafði ráðið mig til að sjá um – sennilega í leit að einhverjum Nýhilljóma (þetta var 2005, Nýhil var sjóðheitt). En samskiptin á milli okkar Snæbjörns voru alls ekki góð, allt fór í rugl og bókin kom aldrei út hjá Traktor – sem gaf bara út eina bók, Áferð, fyrstu skáldsögu Ófeigs Sigurðssonar, ekki síður frábæra bók, sem seldist ábyggilega í 60-70 eintökum. Salan hjá Ófeigi hefur svo bara aukist, held ég. En þó salan hafi verið svona góð dugði það ekki til – kostnaðurinn við þýðinguna á Motherless Brooklyn var of mikill og það jafnt þótt ég hafi hlunnfarið sjálfan mig til þess að geta komið þessu í verk og borgað mér langt undir taxta. Og þar sem bókin kom ekki út var auðvitað engin innkoma af henni. Peningarnir voru búnir og Traktornum var lagt. Bókin kom svo út tveimur árum seinna, 2007, þegar við Snæbjörn vorum báðir fluttir til Skandinavíu og Agla, sem nú er með Angústúru, og Guðrún, sem nú er með Benedikt forlag, höfðu tekið við Bjarti. Long story short þá var henni svona bærilega tekið af kaupendum – fór held ég út í einhvern bókaklúbb – og var svo til uppseld þegar ég fékk Íslensku þýðingarverðlaunin fyrir hana 2008. Hún var ekki endurprentuð þeirra vegna, enda held ég að þau verðlaun skipti litlu fyrir sölu, og ekki heldur núna í tilefni myndarinnar (sem fær ekki nema hlandvolga dóma) og ég hef ekki séð hana nema örfáum sinnum í Góða hirðinum – þar sem ég „hirði“ (ho ho) alltaf eintak ef ég sé. Og gef einhverjum. Ég var ekki á landinu og ekki í Skandinavíu þegar verðlaunin voru afhent, heldur í Bandaríkjunum á ljóðahátíð. Mamma fór til forsetans til að taka við skjalinu en ég mælti mér mót við höfund bókarinnar, Jonathan Lethem, á kaffihúsi í Brooklyn. Ég man aðallega að ég var mjög vandræðalegur og afar þunnur eftir mikið gill kvöldið áður – eftirpartí eftir múm-tónleika þar sem ég sá FM Belfast spila í fyrsta sinn og við Valur Brynjar enduðum á trúnó með einhverjum desert storm hermanni. En Lethem var hress og skemmtilegur, sem og konan hans og ungabarn þeirra, og sagði mér að nú færi að styttast í boðaða kvikmynd Edwards Norton, þetta væri bara allt að gerast. Svo leið og beið og leið og beið og ég gúglaði þessu alltaf annað veifið en var steinhættur því þegar treilerinn bara birtist á kvikmyndatjaldinu einhvern tíma í vor. Myndin einsog bókin fjallar um munaðarlausa einkaspæjarann Lionel Essrog, sem þjáist af tourettes. Lærifaðir hans, Frank Minna, er skotinn í upphafi myndarinnar og deyr og Lionel fer á stúfana til að komast að því hvað hafi gerst – einsog við er að búast kemur ýmislegt upp úr krafsinu. Ég man ekki til þess að bókin sé nákvæmlega tímasett en sennilega gerist hún í nýlegri fortíð – og kemur út 1999 – nokkurn veginn í samtímanum. Hins vegar er frásögnin í harðsoðna reyfarastílnum – noir – ofan í tourettíska kæki Essrogs sem setja mark sitt á bæði stíl, uppbyggingu, framþróun sögunnar og auðvitað persónuleika Essrogs. Norton færir söguna aftur til sjötta áratugarins, sem er þá rétt períóða fyrir noirið, en missir þar með þessa skemmtilegu spennu sem er á milli sagnamátans og sögutímans. Þá blandar Norton líka mikið inn alls kyns non-fiction um verktakaspillingu í New York. Í stað þess að hvíla á tourettinu sem myndlíkingu fyrir mannshugann og samfélagið – þessu hvernig rafstraumarnir sem þeytast um hausinn á okkur hjálpa okkur bæði að skipuleggja okkur og sjá skýrt og þvælast fyrir okkur og trufla okkur í senn – lætur Norton söguna hvíla á frekar beisik pólitískri allegoríu. Maður sér það vel ef maður kíkir á dóma um myndina annars vegar – sem rekja samsærisglæpaplottin skilmerkilega – og um bókina hins vegar, sem nefna þau ekki einu orði og tala bara um persónu Lionels. Það er margt vel gert þarna. Norton fer sjálfur mjög varlega í túlkun sinni á Lionel – sem er í senn smekklegt og skemmtilegt og sennilega betra í woke-samfélagi sem horfir ströngum augum á ófatlaðan mann í fötluðu hlutverki, og bókstaflega rangt (ef maður gengur út frá bókinni). Lionel bókarinnar líður miklu, miklu meira af sínum sjúkdómi en Lionel myndarinnar. Lionel myndarinnar hefur auðvitað ekki sama aðgengi að innri mónólóg og Lionel bókarinnar og þarf þess vegna stöðugt að vera að útskýra hugsanir sínar, sem er eitthvað sem Lionel bókarinnar ræður nánast ekki við – allt sem hann gerir út á við markast af sjúkdómnum, en við sem sjáum inn í höfuðið á honum vitum að þar virkar sjúkdómurinn allt öðruvísi, þar ræður Lionel sjálfur ríkjum og hugsanir hans þjóna honum, þar gerir sjúkdómurinn hann að ofurhetju, ofurgreinanda. Í myndinni er tourettið miklu veikara en að sama skapi kannski eðlilegra – ég veit það ekki (tourette birtist á ólíkan hátt, hjá mörgum verður maður varla var við það nema maður viti af því). En þetta er vel leikið. Tónlistin er skemmtileg. Myndatakan truflaði mig oft – oft fannst mér hún of nálægt leikurunum. Og ég hafði auðvitað æðislega gaman að fá að rifja upp Lionel Essrog, sem ég eyddi eitt sinn svo miklum tíma með – þótt mér hafi þótt bókin miklu betri. *** Kokkáll eftir Halldór Erfð… nei djók, Dóra DNA, er frábær bók. Það vantar reyndar titilinn framan á hana, hefur ábyggilega bara gleymst. Sagan hnitar fimlega í kringum væntingar samfélagsins til karlmanna og væntingar margra karlmanna til sín sjálfra – hún afhjúpar marga hluta þessa brandarasamfélags sem við lifum í, innihaldsleysið og ruglið, minnir á einhverja svona Fight Club eða American Psycho stemningu, neysluhyggjan og greddan, þunglyndið yfir því að eiga allt og hafa aldrei neinar helvítis áhyggjur af neinu nema ruglinu sem maður býr til sjálfur. Já og svo er hún bullandi rasísk. Forsendan í henni – hugmyndin sem rammar hana inn og pönslænið sem hún endar á – er einsog í einhverjum cringe-brandara frá því anno 1993. Svona negri gengur inn á bar dæmi. Ég er rosa hissa að Dóri sé ekki hið minnsta canceled – ekki séð svo mikið sem píp einu sinni frá æstasta fólkinu á Twitter (og vel að merkja mótfallinn öllu svona canceli sjálfur, listaverk eru flóknari en þetta, þau eru staður til að hugsa á og hugsa um – en það er líka áhugavert þetta með frípassana). Í miðri bók fór ég í mat hjá vinum mínum, bandaríkjamönnum, og ég fór eitthvað að tala um klisjuna að vestfirðingum þætti svo gaman að stuða og vinur minn hélt yfir mér langa ræðu um hvernig allir voru alltaf að segja n***ah við hann, hvað þetta væri með íslendinga og þurfa alltaf að segja n***ah í tíma og ótíma, og ég rifjaði upp álíka sögur frá Birni Kozempel, þýskum vini mínum, sem sagði að Íslendingum sem væru búnir að drekka meira en tvo bjóra þætti alltaf æðislega sniðugt að ögra honum með hitlerskveðjum, fingraskeggjum og helfararbröndurum. En allavega. Það rennur alveg nokkrum sinnum á ljóðmælanda Dóra svona n***ah æði. Svo ég útskýri það aðeins þá er nöfin sem bókin snýst um kynferðislegar fantasíur um svartan mann – bæði hugsanir og gerðir – og hugmyndir aðalsöguhetjunnar um þennan mann (sem er mjög mikið stand-in fyrir „svarta manninn“ sem slíkan – hann fær einhverja persónulega eiginleika en stígur aldrei út úr fantasíuvíddinni) markerast af ópróblematíseraðri upphafningu, öfund, blæti, hatri o.s.frv. Að því sögðu er ekki beinlínis sanngjarnt að gera afstöðu aðalsöguhetjunnar að afstöðu bókarinnar (hvað þá afstöðu Dóra sjálfs) – en það er heldur ekki hægt skauta bara framhjá þessu grundvallaratriði í bókinni sem sniðugu plot-device, og ekki hægt að próblematísera eða skoða þetta án þess að nefna það. Og án þess að nefna það réttum nöfnum. Viðtökur einsog „ljómandi skemmtilegt að lesa þessa bók“ (Egill í Kiljunni) ná því einfaldlega ekki. En að því sögðu er bókin samt frábær, einhvern veginn. Hún er miklu betur skrifuð, beittari, en mikið af þessum samfélagskrítísku djammsögum sem maður les – og það er samtímis í henni meiri mýkt og lífrænni bygging. Aðalsöguhetjur bókarinnar eru bæði ljóslifandi og í sjálfu sér ótýpískar, þótt staða þeirra í samfélaginu sé kunnugleg – séu þær klisjur þá sigrast Dóri á klisjueiginleikum þeirra, þær verða einstakar. Eins ósennilegur og söguþráðurinn er – ekki í einstökum atvikum, heldur að þetta raðist allt svona saman, tårta på tårta segir maður á sænsku – þá er hann samt aldrei þvingaður. Það er rosa gott múv í lokin þegar tvívíðasta persóna bókarinnar – Hrafnhildur – reynist loks alls ekki tvívíð, grunn eða nærri jafn mikið fífl og maður heldur fram að því, heldur er aðalsöguhetjan bara alltof upptekin af sjálfri sér til að fatta hvað er að gerast í sjálfskaparvítinu sínu. Snúningurinn á sannleikanum um Tyrone var ekki jafn góður – en sennilega merkingarbær upp á allt hitt og óþarfi að líta framhjá honum. *** Gítarleikari vikunnar er Reverend Peyton úr Reverend Peyton’s Big Damn Band.
id““:““8tnva““
Aino er búin að vera lasin síðustu daga. Það var pínu púsluspil fyrir foreldra hennar að láta það ganga upp, því við höfum mikið að gera, einsog gengur. Nadja lenti í tölvuvandræðum og þurfti að vinna upp alls konar vegna skjala sem hurfu og ég er að keppast út á endann í fyrsta handriti að nýrri skáldsögu til að geta séð hvort ég á séns að klára það fyrir haustið. Reyndar kitlar mig líka að gefa út næsta vor. Jólabókaflóðið hefur almennt vond áhrif á líðan mína og síðasta jólabókaflóð var óvenju slæmt. Þegar Aino er lasin skiptist hún á að vera mjög, mjög þreytt og liggja fyrir framan sjónvarp og að vera mjög, mjög skrafhreifin. Í gær töluðum við saman viðstöðulaust í þrjá tíma um allt milli himins og jarðar. Svo lá hún bara flöt í þrjá tíma. Annars erum við meira týpurnar til að þegja saman – lesa bækur saman, kúra og teygja okkur. Og talandi um vorbækur þá er Ó – um þegnrétt tegundanna í íslenskri náttúru , ný skáldsaga míns kæra Hauks Más, loksins komin út. Ég las hana í handriti fyrir rúmu ári síðan og hafði þá á orði hér einhvers staðar að íslenskar bókmenntir ættu von á góðu – þetta er einfaldlega ein allra áhugaverðasta skáldsaga sem skrifuð hefur verið á íslensku í langan tíma og ég er ógurlega stoltur af að geta kallað Hauk vin minn. Það gleður mig líka að sjá að fólk er spennt fyrir henni og þau sem hafa og eru að lesa hana virðast gríðarkát – það er ekki sjálfsagt að bækur rati í mark. *** Ég sit á kaffihúsinu Heimabyggð. Hér sit ég oft núorðið. Ég hef verið að reyna að skipta vinnutíma mínum aðeins betur á milli ólíkra staða. Skrifstofa verður svo auðveldlega að einhverjum sjúkum bönker – þar sem maður ræktar ekkert nema sínar mest intróvert og paranojuðu tilfinningar. Úr því geta orðið ágætis bókmenntir, í sjálfu sér – ég skrifaði Hans Blævi mestmegnis á kontórnum í Aðalstræti, fyrir utan þann hluta hennar sem var skrifaður í residensíunni í Krems, handan götunnar frá öryggisfangelsi Josef Fritzl og ekki voru það aðstæður sem drógu úr noju eða sjúkleika. En ég er að reyna að skrifa eitthvað aðeins bjartara núna og þá þarf ég líka að geta loftað út úr heilanum á mér. Mest skrifa ég þá heima, á skrifstofunni og hérna. En á þriðjudaginn fór ég og sat á bókasafninu í nokkra klukkutíma og geri það sennilega líka eftir hádegi í dag. Á leiðinni heim kom ég við hérna og fékk mér einn kaffibolla – ókostur bókasafnsins umfram hina staðina er að þar fæ ég ekkert kaffi. Það var lítið að gera. Eyjó – Sesar A – sat í einu horninu og vann að sínu einsog hann gerir oft. Og þá lenti ég í svolitlu merkilegu. Inn kom maður með heddfóna sem hann var augljóslega að tala í – frekar hátt. Þetta voru svona þráðlausir hljóðeyðandi heddfónar, alveg einsog ég á sjálfur, og þegar hann hafði lokið sér af með símtalið pantaði hann sér kaffibolla og settist niður við gluggann. Þar skók hann sér mikinn svo það ískraði og brakaði í stólnum í takt við tónlistina sem hann var að hlusta á – hann tók ekkert eftir þessu sjálfur, verandi með hljóðeyðandi heyrnartól, en það fór nokkuð fyrir þessu á annars hljóðlátu kaffihúsinu. Nema hvað, þetta truflaði mig engin ósköp, ég las í gegnum kaflann sem ég hafði ætlað að skoða, kláraði kaffibollann minn, fór í búðina og heim að elda kvöldmat fyrir gengið – eða sennilega fór ég út að hlaupa fyrst, skiptir ekki öllu. Ég byrjaði aftur á Twitter um daginn, meðal annars til þess að geta fylgst með því hvenær birtast dómar um bækurnar mínar í útlöndum. Ég hef orðið var við að bókatímaritin í Suður-Evrópu – Frakklandi og Spáni, þar sem mér gengur ágætlega – nota Twitter meira en Facebook. Og þess vegna vakta ég nafnið mitt (þótt ég sé annars ekkert yfir það hafinn heldur að gúgla mig – ég er óttalegur lúði). Og þá sé ég að þessi náungi, þessi með heyrnartólin, er einhver fígúra á Twitter (ef maður gúglar nafninu kemur í ljós að hann er fastagestur í svona „fyndnustu tíst vikunnar“ pistlum) og hann hefur verið að tísta. Ég er mjög óvanur þessu og finnst þetta svona fremur í dónalegri kantinum. Ég veit að maður er ekki heima hjá sér á kaffihúsi. Einhvern veginn er stærsti kostur góðs kaffihúss sá að manni finnist maður vera heima hjá sér – og mér líður svolítið einsog einhver hafi tekið mynd af mér innum gluggann heima á náttfötunum. Þú veist, ég skil alveg að það sé fyndið – mér meira að segja finnst það fyndið – en mér finnst það líka pínu dick move. Ekki þar fyrir að það er mjög mikilvægt líka að standa vörð um rétt fólks til að vera fífl. Það má. En mig langaði sem sagt að koma þessu að, að mér þætti þetta fávitaleg hegðun. Annars er Twitter líka mjög skrítið rými. Undarleg blanda af svona smánandi háði og PC vitundarvakningu og tilfinningasemi. Ég hef ekki orðið var við jafn mikinn in-crowd-isma síðan ég var í menntaskóla. Sem er reyndar líka fyndið í ljósi þess að síðustu daga hefur fólk á twitter mikið verið að bera íslenska menntaskóla saman við hitt og þetta (MR er Hufflepuff, MS er Ravenclaw eða MH er Glasgow Rangers, Versló er Liverpool o.s.frv.). *** Ég gleymdi gítarleikara vikunnar í síðustu viku. Lommi hefur verið að biðja mig um að hafa John 5 og það er alveg sjálfsagt. *** Mér finnst sífellt stærri hluti listrýni fara fram á siðferðislegum forsendum. Ég var áreiðanlega búinn að nefna það einhvers staðar hérna. Listaverkum er talið það til lasts að þau séu óþægileg, jafnvel þótt þau eigi augljóslega að fjalla um eitthvað sem er óþægilegt og kanna óþægilega núansa. Annar hver dómur er annað hvort móralskt heilbrigðisvottorð eða fordæming. Þetta er mjög hversdagsleg sýn á listina og verði hún ofan á held ég hreinlega að listin, sem slík, sé dauð og tilgangslaus sem annað en skemmtun. Og þá verður nú gaman að vera til. *** Jæja. Þetta varð alltof langt. Ég á eftir að skrifa mjög mikið í dag og þarf að koma mér að verki.
createdTimestamp““:““2024-05-08T17:16:08.624Z““
createdTimestamp““:““2024-05-16T18:21:40.683Z““
Ég fylgist með alls konar gítarnördum á YouTube – Justin Sandercoe, Andertons-genginu, Samurai Guitarist, Mary Spender, Eric Haugen, Crimson Guitars og stundum líka Paul Davids og Marty Schwartz. Nú er eiginlega allt þetta gengi á sama blettinum í Anaheim í Bandaríkjunum – NAMM, National Association of Music Merchants tónlistarmessan er í fullum gangi og YouTube hetjurnar allar að plögga sig og skoða nýtt dót. Mér sýnist helstu tíðindin vera frá Fender – Accoustasonic gítarinn, sem er rafmagns- og kassagítar, hrikalega ljótur og óspennandi eitthvað en hefur vakið mikla athygli – og Gibson, sem eru að hætta með alls konar framtíðardrasl á gítörunum sínum og einhenda sér í að gera klassíska Gibson-gítara í staðinn. Engar sjálfvirkar stilliskrúfur eða aðrar brellur (ég þekki reyndar bara einn sem á svoleiðis, Mugison, og hann er mjög ánægður með það). Man ekki hvort High Performance línan er alveg farin í ruslið. Fyrirtækið fór í einhvers konar gjaldþrot í fyrra og það var öllu stokkað upp. Og heyrir í sjálfu sér held ég til tíðinda, núorðið, að helstu tíðindin séu af Gibson og Fender. *** Af mínum gítar er eitt og annað að frétta. Ég hafði ekkert að gera á mánudeginum og tók mér því klukkutíma í að skipta um strengi og þrífa Djásnið og Gálknið. Setti líka nýjar stilliskrúfur í Djásnið. Á þriðjudaginn fór ég í Fab Lab og skar út klórplötuna með aðstoð Dodda, sem þar vinnur. Það er ótrúlega mikill lúxus að geta komist í þetta Fab Lab og ég gæti gert miklu meira þar en ég ætla að gera – einfaldlega vegna þess að mig langar að gera mikið af þessu í höndum. Auk klórplötunnar skárum við út hring sem verður notaður sem lok aftan á þar sem hljóðdósarofinn er. Sennilega tók ég því bara rólega á miðvikudeginum. Á fimmtudeginum kom ég svo aftur og skar út búkinn. Heyr á endemi. #fablabisa A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Jan 24, 2019 at 10:39am PST //www.instagram.com/embed.js Þegar heim var komið pússaði ég þetta svolítið og lagaði til með sporjárni – fræsarinn skilur eftir harða kanta sem maður þarf að laga sjálfur. Þetta er svo efnið fari ekki á flug í vélinni. Síðan teiknaði ég allt upp á búkinn, hvar allt á að vera staðsett. Svo handfræsti ég fyrir hljómbotninum (með skapalóni sem ég gerði fyrst) og gerði rásir fyrir snúrur og holu fyrir hljóðdósarofann, með kanti fyrir lokið. Ég gerði líka skapalón fyrir hljóðdósirnar. Og pússaði svolítið meira. Heyr á endemi. A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Jan 27, 2019 at 8:07am PST //www.instagram.com/embed.js Hlyntoppurinn fagri kom í pósti en það fór heldur illa með hann. Hann var 7 mm og mátti alls ekki vera meira en 6 mm, af því bindingin verður að fela hann á köntunum, og við Smári fórum með hann út í vík og mötuðum hefilinn á honum – svoleiðis að hann skemmdist allur og eitt hornið fór meira að segja af. Ég þurfti á öllum styrk mínum að halda til að fara ekki að grenja á öxlinni á Smára. (Það er alltílagi að grenja en maður á kannski ekki að grenja yfir veraldlegu drasli samt – það er líka alltílagi að hemja sig). Ég pantaði mér tvær nýjar frá Króatíu strax og ég kom heim og þær ættu að koma innan tveggja vikna. Síðast tók það níu daga. Ég hélt hins vegar áfram með hinn toppinn og ætla að nota hann til að æfa mig. Ég pússaði niður mestu misfellurnar og límdi hann saman í gær. Á eftir sé ég svo hvernig til tókst. Næst á dagskrá er að láta Adda frænda – eða mann Möggu frænku – bassaleikarann í Ég (í Mér? Í Sér?) og fleiri góðum sveitum – prenta á klórplötuna fyrir mig. Ég er að íhuga að fá gullsmiðinn hérna í bænum til að rista nafnið mitt í hálsplötuna – datt það bara í hug í morgun. Svo þarf ég að halda áfram að pússa bakið og hliðarnar. Ég ætla að fjárfesta í búrgundarlitu bæsi og gera tilraunir með að mála aðeins. Ég þarf að skrúfa eitthvað af götum – sennilega skrúfa ég ekki á klórplötuna samt fyrren ég er búinn að láta prenta á hana, af því götin eiga að flútta við prentið. Svo þarf á að skoða hvernig sé best að prenta á hausinn – kannski eitthvað svona decal-dæmi? Og ég ætla með skemmda hlyninn til Dodda í Fab Lab og skera hann út og leika mér eitthvað með hann. *** Nýr liður. Gítarleikari vikunnar. Í sjálfu sér fáið þið hérna þrjá fyrir einn – en sá sem ég hef mestan áhuga á í þessu er Kingfish Ingram, risavaxni svarti maðurinn með Gibson gítarinn vinstra megin við Samönthu Fish, en auk hennar spilar Ty Curtis á gítar. Kingfish er nýorðinn 20 ára gamall, (17 þegar myndbandið er tekið), fæddur 19. janúar 1999 og hefur meðal annars flutt lag í þáttunum um Luke Cage, spilað fyrir Michelle Obama og tekið upp tónlist með Eric Gales. Ég kann mjög vel að meta svona gítarleikara sem spila svolítið einsog þeir meini það. Gítarinn er ógnarlítill í hrömmunum á honum en skýtur eldingum. Hann byrjar tryllinginn á mín 4.12.
id““:““b0h2d““
Rock or Bust er að mörgu leyti óvitlaus plata. Glúrinn, jafnvel. En hún er líka dálítið mistæk. Fyrstu tvö lögin eru gríðarsterk – titillagið og svo Play Ball, sem er með dásamlega fínu búggípikki, og Stevie gengur bara bærilega að herma eftir Malcolm frænda í bakgrunninum. Malcolm var auðvitað búinn að semja bróðurpartinn af plötunni með Angusi áður en ógæfan náði endanlega yfirhöndinni (af hverju segir maður ekki yfirhendinni?) En Stevie spilar þetta. *** *** Það er ágætt að hafa í huga (og sést svo sem á myndbandinu) að alltaf þegar Brian (eða Bon, nú eða Axl) segir ball eða balls þá er hann að tala um hreðjarnar á sér og þegar hann segir gun eða guns eða war eða eitthvað álíka þá er hann að tala um skaftið sem hann skýtur með, svo að segja, liminn á sér eða liminn almennt – hinn karlmennska heteró-sís getnaðarlim. Þannig er þetta bara, ég veit það er ekki móðins, og þaðan af síðar þessar fáklæddu konur á púlborðunum en hvað getur maður sagt? Þeir hafa aldrei beinlínis skammast sín fyrir neitt og alls ekki að verða einhvers konar dirty old men – í orði ef ekki á borði, allavega ó-#metoo-aðir ennþá – og ég er, einsog kom fram hérna fyrir einhverjum pistlum síðan, alveg hættur að fyrirverða mig fyrir þá eða aðdáun mína á þeim. Þetta er bara alltílagi. *** En svo er ágætt að hafa LÍKA í huga að Youngfjölskyldan eru miklir Glasgow Rangers aðdáendur – og Brian er frá Newcastle þar sem fólk trúir ekki á neitt nema brúnan bjór og knattspyrnu. Einsog svo gjarnan fjallar myndlíkingin ekki bara á það sem hún bendir heldur líka um sjálfa sig. Tíminn er kannski einsog vatnið, en hann er samt ennþá tíminn. Þessi knöttur er líka knöttur og þessi leikur líka leikur. *** Önnur góð lög á plötunni eru Babtism by Fire (borið fram „bap“ + „tissem“ + „bæfæ“) Emission Control (sem fjallar um bíla, ekki loftslagsmál – Brian er ökuþór og bílanöttari, með annan besta tímann í Top Gear keppninni) og Sweet Candy. Hard Times er fínt. *** *** *** Restin er fillerar. Platan er samt bara 35 mínútur. Sérstaklega er mér illa við Rock the Blues Away og Dogs of War (sem ég held að myndi útleggjast Limir kynmakanna – þetta er ekkert æðislega flókið) og Got Some Rock’n’Roll Thunder. *** Það er samt eitthvað fallegt við þessa æðislegu og algeru hollustu við hugmyndina um rokk. Og meðvitund um sögu rokksins og stöðu sína í henni. *** Einsog við munum, sem höfum verið að fylgjast með, þá er fyrsta lagið á fyrstu plötu AC/DC It’s a Long Way to the Top (If You Wanna Rock’n’Roll). Þegar hér er komið sögu er leiðin orðin 40 ára löng og margt gengið á. Bon er auðvitað dauður fyrir ríflega 30 árum. Plötuskiptingin er jafnari – Bon á sex plötur og Brian tíu. Menn hafa farið í meðferð – verið reknir og snúið aftur – þeir hafa náð sturluðum hæðum í lagasmíðum (Powerage, Highway to Hell og Back in Black) og vandræðalegum lægðum (Flick of the Switch, Fly on the Wall), risið á ný (Razors Edge) og náð einhverri undarlegri og traustri, fyrirsjáanlegri myndu einhverjir segja, siglingu – og allt án þess að breyta nokkurn tíma formúlunni. Það er ótrúlega lítill munur á AC/DC lögum sem rista mann í sundur og AC/DC lögum sem floppa fullkomlega. Þetta er eltingaleikur við fínlegasta fullkomleika, á gríðarstórri skepnu – behemoth, heitir það skepnan í Jobsbók (ýmist nykur eða flóðhestur á íslensku) – og hann næst ekki nema endrum og eins og stundum þegar hann nær skriðþunga raðast niður meistaraverkin hvert á fætur öðru. *** Þeir eru líka orðnir gamlir karlar. Ég held þetta sé eina platan þar sem raunverulega er hægt að tala þannig um þá. Ekki að þeir séu ekki ennþá strákslegir og vanþroska, að Angus flissi ekki einsog skítugur skólastrákur að eigin neðanbeltishúmor. En þeir eru orðnir ansi fótalúnir og þunnhærðir. *** En platan heitir Rock or Bust og maður lætur það ekki buga sig. Maður lætur ekkert buga sig. Maður lætur það ekki buga sig þegar Malcolm verður svo slæmur af vitglöpunum að hann getur ekki spilað lengur – maður ræður Stevie frænda í staðinn fyrir hann. Maður lætur það ekki buga sig þegar Phil Rudd er handtekinn fyrir hótanir og massífa fíkniefnaeign – maður ræður Chris Slade aftur, sem spilaði fyrst á Razors Edge og er eini maðurinn sem trommar eitthvað líkt jafn fast og Phil. Svo drífur maður sig í stúdíóið og á túrinn og lætur það ekki buga sig þegar Brian missir heyrnina – maður rifjar upp að Guns N’ Roses voru gjarnir á að kovera Whole Lotta Rosie og ræður Axl, enda hefur hann ekkert betra að gera. Maður lætur það ekki buga sig þegar Guns N’ Roses koma saman aftur – heldur raðar saman tveimur heimstúrum hverjum ofan í annan og skutlar Axl, óáreiðanlegasta manninum í skemmtanabransanum til þessa, manninum sem hefur hingað til aldrei mætt á neina tónleika á réttum tíma – á milli með einkaþotum og lætur það ganga upp (og kennir honum loks að mæta á réttum tíma – sem hann hefur gert síðan). Maður lætur það ekki buga sig þegar Axl fótbrýtur sig á fyrstu tónleikunum með Guns – á sjálfum Troubadúrnum – heldur fær lánað fyrir hann hásæti og heldur skemmtuninni áfram. Því það er Rock or Bust sem gildir. Fjörutíu ára behemoth á fullum skriðþunga og það fær hann ekkert stöðvað. *** *** Svo klárar maður túrinn og grefur bræður sína tvo í röð, fyrst George og svo Malcolm. *** Hvort eitthvað verður í framhaldinu veit enginn. Axl segist ætla að vera til taks fyrir Angus á meðan þess er óskað. Cliff, sem er 68 ára, segist hættur fyrir fullt og allt. Chris er 71 árs. Phil 63 ára. Stevie 61 árs. Angus 62 ára. Axl er ekki nema 55 ára, af 1962 árganginum (jafnaldri Sjóns og meirihluta þeirra sem dóu í Codexnum). Mér finnst sennilegt að Angus viðhafi sömu reglu og hingað til – einhverjir meðlimir sveitarinnar munu hittast eftir nokkur ár með hljóðfærin og athuga hvort eitthvað gerist. Ef eitthvað gerist – þá getur hvað sem er gerst. En í raun er líklegra að þeir hittist bara, fái sér bjór og spili púl, knúsi hver annan svolítið og fari svo aftur hver í sitt heimshornið. *** Ég gerði playlista með bestu lögunum. 32 lög, að meðaltali 2 per plötu, og aldrei færra en eitt af hverri. Til að hafa fleiri en tvö lög af einhverri plötu þurfti ég að sleppa einu góðu af einhverri annarri. Það var hrikalegt að eiga við sumar – ég neyddist t.d. til að sleppa Live Wire. Who Made Who bjargar mér – því þar næ ég inn Hells Bells og Ride On, en verð þá að sleppa hinu ágæta titillagi (sem er eina nýja lagið á plötunni, fyrir utan instrumentals). Og Fly on the Wall og Flick of the Switch gátu aldrei fengið nema í mesta lagi eitt. *** *** Svo skulum við bara muna lögmálið. Þetta er helvítis hellings vinna og það verður ekki létt og það á allur fjárinn eftir að drífa á daga okkar, en það gæti orðið gaman samt – ef við látum ekki bugast.
id““:““db44e““
Merkilegt nokk hefst fyrsta lagið á Dirty Deeds Done Dirt Cheap – titillagið – á nokkurs konar krítík á perraskap. „If you’re havin’ trouble with the high school head/ He’s givin’ you the blues/ You wanna graduate but not in his bed/ Here’s what you gotta do“. Og þá hringir maður sem sagt í Bon Scott – eða ljóðmælanda – sem vinnur skítverkin fyrir skít og kanil. Ætli það þýði ekki að hann lemji mennskuna aftur í skólastjórann svo maður þurfi ekki að totta hann fyrir góðar einkunnir? *** Það er erfitt að skrifa um plötur án þess að segja bara „og svo kemur næsta lag, það heitir og það er svona og svona“. Að sem sagt skrifa eitthvað um sjálfa plötuna, heildarverkið, frekar en bara lögin sem það samanstendur af. Kannski er það sérstaklega erfitt með AC/DC plötur – meira að segja Angus segir að þetta sé allt sama platan. *** Það er klassískt rokklag á Dirty Deeds einsog á High Voltage – hér er það Rocker. Og raunar er There’s Gonna Be Some Rockin’ líka klassískur rokkari. Hérna byrjar líka að votta fyrir meistaraverkinu – Back in Black. Problem Child er einsog litla systkin titillagsins á svörtu plötunni, bæði riffið í versi og kórus, og ekki síst eitthvað í sándinu – einhver þungi, eitthvað músíkalskt umami. Sólóið er svolítið æstara – Angus er náttúrulega andsetinn og var það áfram, en fór smám saman að kompónera meira. Hann fékk alls ekkert krítískt kredit fyrstu árin – tónlistarpressunni fannst hann skemmtilegur en gaf lítið fyrir gítarleikinn, þetta eru náttúrulega proggrokkárin og Angus er allt annað en „vandaður“. Þessi live-upptaka frá ’76 – árinu sem platan kom út – er æði. *** Hvenær fóru annars rokkstjörnur að vera svona vel vaxnar? Í dag lítur þetta fólk allt út einsog einhvers konar guðir. Strákarnir í AC/DC gerðu ekkert tilkall til að vera fallegir – ekkert svona „fjölbreytt er fallegt“ eða þannig. Þeir voru bara ljótir og ownuðu það fullkomlega. Sennilega voru nú flestar stjörnur samt fallegar á þessum tíma. Þegar Angus – aftur með tilsvörin – var spurður hvers vegna hann væri alltaf að girða niðrum sig sagðist hann einfaldlega vera fallegri þeim megin. *** Bon Scott var kyntáknið í bandinu. *** Samt var Angus vaxinn einsog Kate Moss. *** Einsog sagði hérna í High Voltage færslunni var samkomulag um það frá upphafi að það mætti ekki breyta formúlunni. Auðvitað eru þetta alveg tvær þrjár formúlur, þannig lagað – einhverjir varíantar hingað og þangað af þessari einföldu grunnhugmynd, að sjóða rokktónlistina niður í konsentrat og hækka síðan í botn. Melódíski varíantinn, klassíski varíantinn, blúsaði varíantinn og svo … AC/DC varíantinn, eitthvað sem þeir eiga alveg skuldlaust sjálfir, einsog Back in Black, Thunderstruck, It’s a Long Way to the Top, Stiff Upper Lip, Highway to Hell, For Those About to Rock o.s.frv. Kannski er það einmitt þar sem allt gengur upp – hreint og óspillt rokkþykkni. *** Þess vegna eru ekki til neinar AC/DC ballöður. Nema … já, nema … Ride On. Hljómsveitin hefur bara einu sinni spilað það á sviði – í París, 2001 – með Brian Johnson, sem kynnir lagið með orðunum „This is a Bon Scott song“. Sem þýðir ekki að mörg hinna laganna sama kvöld hafi ekki verið það – hann kynnir ekki Whole Lotta Rosie þannig, þótt það fjalli beinlínis um kvöld með konu sem hann hefur aldrei hitt. En Ride On er líka lagið hans Bon – og manni finnst einsog sjái inn í kviku á manni sem var annars alltaf tongue-in-cheek kaldhæðinn. Þetta er ekki bara eitt af eftirlætis AC/DC lögunum mínum heldur eitt af eftirlætis lögunum mínum punktur. Það var ekki brugðið út af formúlunni fyrir neitt minna en instant klassík. *** *** Sennilega mætti stilla þeim upp sem systurlögum, Ride On annars vegar og Big Balls hins vegar, sem grunnþáttunum í persónuleika Bons. Hann er ekki endilega alltaf betri söngvari en Brian en hann er eiginlega alltaf betri textasmiður. Einhvern veginn einsog honum sé í senn meira alvara og hafi meiri húmor fyrir þessu. Og það var helvítis mikil sál í honum, líka þegar hann er að djóka. *** *** Þetta er líka svínhörð stéttakrítík! Og ef þið viljið vita hvort hann mælir rétt og satt, um hreðjarnar, skuluð þið skrolla aftur upp að myndinni af kvikindinu. Og taka andköf. #ACDC