Fjölskyldan er kominn til den kungliga hufvudstaden – Stokkhólms – til að fagna nýja árinu. Í Svíþjóð – einsog svo víða – heitir gamlársdagur ekki gamlársdagur heldur „nýárskvöld“. Einsog aðfangadagur heitir „jólakvöld“. Þótt ég hafi áratugareynslu af þessari málhefð venst hún illa. Þegar fólk segir við mig að eitthvað eigi að gerast „på nyårsafton“ – ellegar „on new year’s eve“ – hugsa ég alltaf um kvöldið fyrsta janúar. Og mæti degi of seint. Stokkhólmur er merkilega svæðisskipt borg. Miðborgin er í höndum aðskilnaðarstefnu hins hvíta kynstofns – þar gengur fólk um með angórutrefla og sojalatte og er einhvern veginn hvítt á hörund meira að segja þegar það er ekki hvítt á hörund. Nema auðvitað afgreiðslufólk í Pressbyrån og sumum veitingastöðum og þau sem þrífa hótelin. Úthverfin hafa svo hvert sinn blæ. Við erum með íbúð að láni í Skarpnäck. Ef þungarokksfjölskyldufólkið safnast saman í Rejmyre þá er það anarkista-fjölmenningar-fjölskyldufólkið sem endar hér – sem og í næsta hverfi, Bagarmossen. Þeir sem hafa gefist upp á mólotovkokteilum, kommúnum og opnum samböndum – en halda í litteratúrinn, mótmælin, fagurfræðina og málfundina. Ég hef einu sinni komið hér áður og var þá bara handan við hornið í Skarpnäck Kulturhus sem gestur á Anarkistiska Bokmässan – sem virðist hafa lagt upp laupana reyndar. Þangað var mér boðið eftir að hafa tekið þátt í Anarchist Book Fair í Frankfurt og sá fyrir mér gríðarlegan feril í því að flakka á milli bókamessa stjórnleysingja en svo náði þetta ekkert lengra. Ég er hugsanlega ekki nógu félagslyndur fyrir anarkistana – minnir að ég hafi verið svolítið hornreka á þessari hérna í Skarpnäck, nema rétt á meðan ég var á sviðinu. En þetta er vinalegt hverfi. Mikið af auglýsingum um jóganámskeið og málfundi á ljósastaurunum. Fjölmenningarjólatónleikar. Hinsegin föndurstund. Einhvern tíma hefði ég fundið mjög sterkt til þess að ég heyrði til á svona stað – þegar ég kom til Norrebrø í fyrsta skipti (1996 sennilega) og gekk á milli bókabúða sósíalista var ég beinlínis ölvaður. Í dag er því kannski öðruvísi farið. Í grunninn eru róttæklingar og fólk sem lifir „alternatífum lífsstíl“ mitt fólk en ég hef líka kynnst of mörgu þannig fólki sem gengur bara um með sína eigin fordóma og fylgir sínum eigin fyrirframskrifuðu forritum til þess að trúa jafn sterkt á róttækni þeirra eða alternatífa lífsstíl og ég gerði. Í einhverjum skilningi er tilfinningin kannski einsog gömul ástarsorg – það leiftrar til í hjartanu en ég verð líka leiður. Og ekki vegna þess að ég sé ekki sammála öllum málstöðunum, vel að merkja – heldur ýmist þess hversu oft hugsjónirnar rista grunnt og hvað þeim fylgir oft einhver önnur óværa. T.d. fyrirlitning – eða enn verra, meðaumkun – gagnvart einhverjum lægri millistéttarlífsstíl, „plebbunum“. Þessi hugmynd um að fyrst viðkomandi róttæklingur sé uppvaknaður séu allir aðrir sofandi maurar sem skilji ekki einu sinni eigin heimsku, hafi aldrei reynt að hugsa sjálfstætt og svo framvegis. Svo verður kappið oft nóg til þess að réttlæta alls konar afslætti á prinsippum – tilgangurinn helgar oft óljúf meðöl og óyndisleg. Skarpnäck þótti annars frekar öruggur staður samkvæmt könnun frá árinu 2018. Þá upplifðu 3% íbúa sig óörugga, sem er bæði lægra en annars staðar og hafði þá lækkað milli kannana – 2009 þótti hverfið með óöruggari hverfum í Stokkhólmi. Ein ástæðan sem var gefin upp þá var að eitthvað af þeim ungu karlmönnum sem þóttu líklegir til þess að hafa annars lent í gengjum höfðu þess í stað fengið pláss í slökkviliðinu – sem gegnir líka einhvers konar hlutverki hverfisumsjónarmanna, områdesvärdar. Slíkir fylgjast með nánast hverju sem misfarist getur farið í hverfinu – frá ónýtum ljósaperum og upp úr. Síðan hefur aftur hallað undan fæti og bara í ár hafa verið fjórar skotárásir í hverfinu, þar af tvær sem kostuðu mannslíf. Í öllu Stokkhólmsléni hafa 27 manns látist í skotárásum í ár – og byssuofbeldi í landinu öllu hefur aukist mikið á síðustu árum í kjölfar upplausnar á eiturlyfjamarkaði eftir miklar handtökur. Ofbeldið í Stokkhólmi eða öðrum stórborgum í landinu er samt ekki aðalvaldurinn að þessari aukningu, því þar hefur það lengi verið mikið, heldur hefur skotárásum í minni bæjum – svo sem Eskilstuna – farið upp úr öllu valdi. Annars virkar Svíþjóð alltaf á mann sem voða pen. Og ekki væsir um okkur hér í Skarpnäck né heldur upplifum við mikla ógn. Nadja er í miðborgarferð með vinkvári sínu, Lehmus, og við Aram og Aino ætlum að skila syni háns á námskeið upp úr tvö og halda sjálf í okkar eigin bæjarleiðangur. Hér verður mest dundað sér og dólað þar til flugeldarnir sprengja gamla árið í ræmur á nýárskvöld. Sem er sem sagt haldið á gamlárskvöld.
Jóladagur
Í gærkvöldi kenndi ég dóttur minni orðið „spaðmolla“ og í dag komst ég svo að því að það er ekki til í orðabók – frekar en reyndar trukkanaglinn bróðir þess, „kjötsvimi“. Einsog dyggir lesendur muna var ég eitthvað að efast um íslenskuhæfileika mína í gær en sá efi er nú alveg horfinn, enda orðaforði minn augljóslega orðinn stærri en orðaforði sjálfrar orðabókarinnar. Í sveitasetri tengdafjölskyldu minnar í Rejmyre eru allir húsgestir illa haldnir af spaðmollu. Hér mætast margar missamræmanlegar jólahefðir ólíkra fjölskyldna og þjóða á hinu alskandinavíska „julbord“. Ég kom með tvö kiló af hangikjöti, sauð tvö kíló af kartöflum og hrærði uppstúf úr hálfu smjörstykki með þessu. Þá var af íslensku líka 30 laufabrauð, slatti af flatkökum, nóg af jólaöli í appelsíni og sænsku julmust (apotekarnas) auk Jóla-Skarfs, Jóla-Dranga og Hátíðarpúka. Þetta eru allt bjórar frá Dokkunni á Ísafirði, þar sem Valur bróðir minn og Hákon æskuvinur hans véla með humla og bygg. Svo voru þrjár tegundir af finnsku lanttulaatikko , sænsk jólaskinka, svínaskammrif, fjórar tegundir af síld, þrjár tegundir af prinskorv (smápylsum – svína-, kalkúna- og grænmetis-), tvær tegundir af kjötbollum (með og án kjöts), ofnbakaður lax, rauðkál, Janssons frestelse , rauðbeðusalat, soðnar kartöflur, grafinn lax með hofmeistarasósu og heimalagað hrökkbrauð. Í forrétt var vel útilátinn rækjukokteill – ég át tvo, af því yngsti matargesturinn fúlsaði við sínum – og í eftirrétt ostakaka. En þegar að honum kom var spaðmollan orðin svo rík með jólabörnunum að kakan var aldrei einu sinni borin fram og er enn ósnert. Ég fékk tvær bækur. Fyrst má nefna Båten eftir víetnamska höfundinn Nam Le. Ég byrja alltaf á kíkja aftan á víetnamskar bækur til kanna hvar höfundarnir ólust upp – því ef frá eru talin fáein ljóðskáld og Duong Thu Huong er það er nær aldrei Víetnam. Nam Le er alinn upp í Ástralíu og bókina fékk ég sem sagt í sænskri þýðingu. Bátafólksbókmenntir eru nánast sérbókmenntagrein og vandmeðfarin – enda samband þessara expata við fósturjörð sína og þjóðmenningu flókið. Sennilega var það Duong Thu Huong sem sagði það í einhverju viðtali – og var að tala um sjónarhorn vesturlandabúa á Víetnam frekar en þetta – að heimurinn ætti til að gleyma því að Víetnam væri land en ekki styrjöld. Og þá ber að hafa í huga að hún barðist í þessari styrjöld og neyddist svo síðar til þess að flýja land vegna skoðana sinna – og ekki vegna þess að hún sé „hægrisinnaðri“ en valdstjórnin í Hanoi. En í expatabókmenntunum vill líka bregða við að Víetnam byrji og endi í þessari styrjöld og fátt annað en það og beinar afleiðingar þess komist að. Auðvitað snertir stríðið flest svið mannlífsins, enn í dag, en það er líka mikið klæmst á þessu. Annars sakna ég Víetnam alltaf mjög mikið. Við bjuggum þarna veturlangt fyrir sjö árum og það átti mjög vel við mig. Hin bókin sem ég fékk var Aðgát og örlyndi eftir Jane Austen í þýðingu góðvinkonu minnar og bandamanns Silju Aðalsteinsdóttur. Hana fékk ég frá Forlaginu – en hina frá Nödju. Ég hef lesið hana á ensku, einsog megnið af Austen, og skrifaði meira að segja pistil í Klassekampen einu sinni um þann skandal að hún – og Orlando – skyldu ekki vera til á íslensku. Síðan hafa þær báðar komið út. Ég fékk líka trefil og gjafakort í Sky Lagoon og tónlistarkviss og Mule Variations á vínyl og eitt og annað fleira. Þær gjafir sem ég gaf sem hittu best í mark voru kraftmikið ennisljós sem ég gaf Nödju – til þess að skíða með í skammdeginu – og bréfsefni sem ég keypti í Gömlu bókabúðinni á Flateyri; bakpoki sem Aram fékk og bolir og buxur sem Aino fékk. Og gjafakort í Flyover Iceland, sem hún hefur farið í einu sinni áður og fannst æði – ég fæ að fara með henni í þetta skiptið.
Jólakveðja
Það snjóaði ekki beinlínis í Rejmyre í nótt en það frysti og nú er allt hvítt en ekki beinlínis snævi þakið. Það er jólalegt, passlega kalt og fallegt lognveður. Ég rölti í búðina eftir nokkrum sítrónum og heilsaði fólki á gangi. Rejmyre er frekar strjálbýll 900 manna bær við hliðarveg úti í rassgati milli Norrköping og Finspång. Hér er matvöruverslun, gamaldags glerverksmiðja og pizzeria og eiginlega ekki margt annað. Á sumrin er þungarokkshátíð hérna, Skogsröjet, og margir íbúanna búa hér hennar vegna – þungarokksfjölskyldufólk milli þrítugs og fimmtugs. Það kemur strætó nokkrum sinnum á dag sex daga í viku. Ef maður ætlar í burtu á sunnudegi þarf maður að ganga 17 kílómetra leið til Vistinge sem er við hraðbrautina milli Norrköping og Finspång. Það hef ég einu sinni gert – og til baka í kolniðamyrkri – og það er meiri áreynsla en maður gæti ímyndað sér að óreyndu. Svíar heilsa manni með „hej hej!“ – þetta er glaðleg kveðja, létt og hátóna, og einhvern veginn undarlegt að heilsa svona fólki sem maður þekkir ekki neitt. Það er næstum einsog kveðjunni eigi að fylgja samræða – að maður spyrji hvernig börnin hafi það og hvað fólk ætli að hafa í jólamatinn, skiptist á gjöfum og knúsist svo að skilnaði. Að vísu er undantekning að manni sé heilsað. Flestir ganga bara framhjá manni og horfa niður fyrir sig – manni finnst næstum einsog þeir séu að passa sig að lenda ekki í þessu hræðilega „hej hej!“ Að því leyti er Svíþjóð pólaríserað samfélag. Á Íslandi – eða í það minnsta á Ísafirði – heilsast fólk með því að segja „góðan daginn“. Og flestir heilsast – ég myndi segja svona 70%, en færri á fjölförnum götum eða verslunum. Þeim mun fleiri sem eru á ferli, því ólíklegra er að það sé heilsað. Sumir segja ekki „góðan daginn“ heldur „góðan dag“. Og ef maður þekkir viðkomandi, t.d. ef það er gamall vinnufélagi eða þannig, þá hendir maður í eitt „blessaður“ eða jafnvel „nei hæ“ – sem er skyldast „hej hej“. En það notar maður alls ekki á ókunnuga. Af og til kinkar maður bara kolli. Og stundum lítur maður niður fyrir sig og forðast allar kveðjur. „Góðan daginn“ er þung kveðja, það er í henni ákveðin alvara og festa, og hún er léttúðarlaus þótt í henni sé væntumþykja. Með henni gerir maður sér ekki upp vinskap heldur gengst við samfélagi – við erum saman í samfélagi, við þessir gangandi vegfarendur á lífsins götum, þótt við þekkjumst ekki. Á milli okkar liggja sterkir þræðir og við óskum hvert öðru hins besta. „Góðan dag“ segja svo þeir sem eru betur upp aldir. Þeir sem eru af borgaralegum heimilum. Það er réttara, er mér sagt, en ég segi samt alltaf „góðan daginn“ og man svo að maður á eiginlega að segja „góðan dag“ og svo hugsa ég stundum: ætli fólk haldi að ég, skáldið, kunni ekki að tala? Þvínæst hugsa ég um miðann sem Sigurður Pálsson skrifaði til foreldra minna fyrir hönd afa míns í brúðkaupsferð þeirra – hann var þá fararstjóri og miðinn fylgdi kampavínsflösku. „Þetta er frá faðir Herdísar“. Ef stórskáldin þurfa ekki að beygja rétt þá hlýt ég að mega segja „góðan daginn“ án þess að vekja með fólki hrylling. Annars er þetta jólakveðja. Sænsk-íslensk. Ég vona sem sagt að þið, kæru lesendur nær og fjær, hafið það öll gott og fáið mikið af dóti í jólagjöf og mikið gott að borða og ekkert samviskubit yfir hedónismanum, eða lítið af dóti og mat og lítið af samviskubiti fyrir þá sem ráða ekkert við sig. Eða hvaðeina sem kemur ykkur til. Ég óska ykkur auk þess átakalausra jóla, lausra við nöldur og skandala og óþægilegrar spennu, og það gefi sér allir frí á fyrstu, annarri og þriðju vaktinni og hafi það umfram allt annað næs. Gleðileg jól!
Líf í lest
Kæru lesendur, við erum stödd í hraðlest númer 537 til Kaupmannahafnar. Við ætlum ekki þangað. Við ætlum að fara úr á miðri leið. Og láta sækja okkur á lestarstöðina í Norrköping. Ég las Millibilsmann Hermanns Stefánssonar í flugvélinni. Tók með mér í jólafríið bækurnar sem ég var viss um að myndu höfða til mín frá höfundum sem ég treysti fram af bjargi – með jólakonfektið í annarri, skáldverkið í hinni og bókamerkið á milli tannanna einsog veiðihníf. Hermann brást ekki væntingum mínum – það er rokna gangur á honum síðustu árin og Millibilsmaðurinn er alvöru bók, með hans bestu, í flokki með Bjargræði og Algleymi. Jannes og Tindri eru í senn brjóstumkennanlegir og fagrir – Jannes í stöðugri baráttu við intellektið á meðan Tindri fylgir hjartanu af einlægni, sem maður getur ekki annað en trúað að sé fölskvalaus. Að minnsta kosti á köflum. Ég kom út úr bókinni í senn trúaðri og vantrúaðri, fyllri af furðu og raunsærri á veruleikann, jarðbundinn á ferð með himinskautum. Og smáflissandi kátur. Svo kemur líka skáldið Arnrún frá Felli, sem ég fékk dellu fyrir fyrr í ár , við sögu í bókinni í ansi kræsilegri kjaftasögu. Að vísu undir dulnefni. Ég veit ekki hvað ég á að vera að kjafta kjaftasögunni í fólk sem á eftir að lesa bókina en við sögu koma séra Haraldur Níelsson, tryggðasvik, hinsegin ástir og trúlofunarsvaðilför til New York. Og dularfull kona að nafni „fröken Jónasen kaupmaður“ sem mig langar mikið að vita hver var í raun. Næst á dagskrá er Tól Kristínar Eiríks. Ég byrjaði á henni á Sala Thai á Stockholm Central – sem er viðeigandi af því bókin hefst „nálægt miðborg Stokkhólms“. Svo er Svefngríman hans Örvars. Og Dáin heimsveldi eftir Steinar. Tugthús Hauks Más er líka í þessum flokki – bækur eftir höfunda sem ég treysti og tel til vina – en hana er ég búinn að lesa í tvígang. Auk hinna traustu er ég með eina bók eftir David Lodge, Changing Places, sem franskur vinur minn í Helsinki sendi mér rétt áður en ég fór, og sagði að ég yrði að lesa. Og tvær bókasafnsbækur – Brimhóla eftir Guðna Elísson og Sælureit agans eftir Fleur Jaggy. En þessar þrjár síðastnefndu eru utan hins fíltrausta jólaprógrams. David Lodge hef ég ekki lesið í hundrað ár og man varla hvað mér fannst um – Jaggy hef ég aldrei lesið og ég var mjög mishrifinn af fyrstu bók Guðna, Ljósgildrunni . Ég er þó bjartsýnni á Brimhóla . Bæði er hún styttri – stærsti galli Ljósgildrunnar var að hún stóð ekki undir eigin þunga, sumir hlutar voru mjög góðir, en aðrir hálfgert bull, og heildin hékk illa saman; og svo hefur Guðni sjálfur farið sér hægar í grobbnum yfirlýsingum um eigin snilligáfu í tengslum við kynningu bókarinnar. Og því fylgir henni minni bísmak .
Flæðisker
Ég er kominn til Keflavíkur. Hlustaði á Punkt, punkt, komma, strik á leiðinni – en hún er mjög stutt og kláraðist í Búðardal svo ég greip næst í það sem hendi var næst . Eðlilega. Það var næst . Og maður nennir ekki að vera stopp úti í vegakanti mjög lengi. Það sem er næst á streymisþjónustunum er einfaldlega það sem algóritminn ýtir næst manni og algóritminn hjá Storytel er með eigin framleiðslu á heilanum og benti mér á „hljóðbókina“ Skerið eftir Ragnar Egilsson og Áslaugu Torfadóttur. Storytel Original (upprunaleg frásögn). Í Skerinu er „farið með hljóðbókarformið á næsta stig og engu til sparað“ einsog segir í kynningu og hefur verið mér umhugsunarefni. Kannski er einfaldast að ég láti innihald sögunnar og gæði bara liggja milli hluta hérna (sérstaklega vegna þess að ég á enn síðasta þáttinn eftir) til þess að ræða formið í friði. Næsta stigs hljóðbókarformið er nefnilega furðulega líkt því sem var kallað „útvarpsleikrit“ hérna upp úr 1982. Eiginlega bara alveg eins. Það vantar bara að sögupersónurnar kalli hver aðra „lagsmaður“ og einhver sé „lautinant“ og konur séu ávarpaðar „fröken“. (Í Skerinu er það hundur sem er ávarpaður „fröken“). Sem er alltílagi, fínt form, þótt ég sakni lagsmannanna. Ég er svolítið hugsi yfir því hvað það er sem geri þetta að bók? Nú eru leikrit stundum gefin út á bók en þau verða bók við þann gjörning – fram að því eru þau handrit og performans. Hljóðbók er bók sem er lesin upp. Skerið er leikrit sem er lesið upp. Hjá hljóðbókastreymisþjónustu. Gerir það Skerið að bók? Ef það væri lesið upp á Rás 1 – myndi það gera það að leikriti? Hljóðbókarútgáfan af Frankensleiki – sem kemur fljótlega út hjá Forlaginu og einhvern tíma síðar hjá Storytel (kannski fyrir næstu jól?) – endar á laginu um Frankensleiki. Er þá lagið bók? Nú eru margar vinsælustu barnabækurnar tónlistarbækur með tökkum – maður ýtir á takka og fær lag. Eru lögin í þeim bókum ekki í einhverjum skilningi orðnar bókmenntir? Annað sem ég er hugsi yfir er þessi þörf til þess að kynna alla skapaða hluti sem nýjasta nýtt – hvers vegna kynnti Storytel Skerið ekki bara sem „ekta gamaldags útvarpsleikrit“? Er það ósöluvænlegt að kalla þetta leikrit? Og hvað finnst manni um það ef þetta er framtíð hljóðbókarformsins – myndi ég vilja að hljóðbókarútgáfan af mínum bókum væri leikgerð? Eða snýst þessi framtíð bara um áhrifshljóð? Vandamálið er kannski að sem útvarpsleikrit er Skerið að formi til gamaldags en sem hljóðbók er það formnýjung. Sem lag væri það framúrstefna og sem myndlistarverk væri það hreinlega bylting. * * * PS. Frankensleikir fékk annars annan glimrandi dóm í Mogganum í dag. Ekki lesið hann en honum fylgdu að sögn fjórar stjörnur.
Stofnun Eiríks Norðdahl
Síðasta kvöldið heima á þessu ári. Í fyrramálið verður vegurinn suður loksins ruddur alla leið og þá keyri ég til höfuðborgarinnar, versla örlítið, held svo áfram til Keflavíkur og sef þar aðra nótt og flýg til Stokkhólms morguninn eftir, tek lest til Norrköping, rútu til Vistinge og aðra rútu til Rejmyre, þar sem jólahátíðinni verður fagnað. Af því tilefni horfði ég í kvöld á hina klassísku Planes, Trains & Automobiles með Steve Martin og John Candy í aðalhlutverki. Það var hjartastyrkjandi. Við snúum svo aftur til landsins 2. janúar og förum sennilega heim degi síðar. Í fréttum má nefna að Frankensleikir fékk afar lofsamlegan dóm á Bókmenntavefnum Þar skrifar Kristín Lilja meðal annars eitt og annað um það fyrir hvaða markhóp bókin er – sem ég er alveg sammála, þetta er mjög skrítin bók þannig, en í sjálfu sér myndi ég segja að margar fullorðinsbókanna minna séu líka í einhverjum rifum á milli markhópa – segi sérstaka hluti sem séu ekki endilega alltaf fyrir alla. Hans Blær er ágætis dæmi um bók sem gat komið illa við ólíka aðila af mjög ólíkum ástæðum – en átti sér síðan nokkra drauma lesendur. Ég er alveg sáttur við að skrifa ekki fyrir alla – vil heldur skrifa sterkt fyrir fáa en bærilega fyrir fjöldann. (Samt vil ég auðvitað líka að allir elski mig!) Í öðrum fréttum þá hefur Hermann Stefánsson jólaskreytt lagið um Frankensleiki með bjöllum og orgeli og píanói og bakröddum og alls konar dásemdum. Þessa útgáfu má heyra á soundcloudinu mínu . Í þriðju fréttum þá lenti ég í viðtali um kúltúrbörn í Lestinni á Rás 1 í dag. Eiginlega í afleysingum fyrir Berglindi Ósk. Þetta er mikið afleysingahaust hjá mér – eini upplesturinn minn var afleysing fyrir Bergsvein Birgisson, hljómsveitin Gosi (sem ég er í) leysti af eitthvað covidveikt ball-band á árshátíð Ísafjarðarbæjar, svo leysti ég af bassakennarann hennar Ainoar í undirleik á tónlistarskólatónleikunum hennar og nú er ég farinn að svara fyrir bloggpósta annars fólks í útvarpinu. Í afleysingum. Við Auður Jónsdóttir tókumst á – og þetta var nú blóðheitara en ég hafði reiknað með. Sem er alltílagi, eiginlega bara ágætt – það er alltof mikið um átakakvíða í þessu samfélagi. Ég átta mig annars ekki alveg á því hver afstaða Auju er. Í aðra röndina virtist hún taka undir þetta almennt og finnast mjög mikilvægt að umræðan ætti sér stað, en í hina röndina átti þetta aldrei við í neinu tilteknu dæmi og alls ekki þegar það varðaði hana sjálfa, og taldi sig að mér heyrðist hafa hlotið meira bágt af tengslum sínum við afa sinn en eitthvað annað. Mér fannst svo mjög langsótt að ætla að Berglind Ósk væri eiginlega bara alveg jafn vel tengd og Auður – af því hún hefði verið í ritlist og Steinar Bragi væri kærastinn hennar. Það er reyndar mikilvægt að halda því til haga finnst mér að þegar maður hefur komið ár sinni fyrir borð skiptir þetta engu máli lengur – ég held ekki að það muni neinu á Steinari Braga og Auði í dag, ekki á aðstöðu þeirra, og ef það gerir það hefur það ekki með nóbelsverðlaunin að gera – en það skiptir öllu upp á atlætið sem maður fær sem byrjandi (og jafnvel áður en maður er byrjaður). Svo getur vel verið að fólk öfundist út í það atlæti og geri grín að manni, einsog Auja bendir á, og það er áreiðanlega sárt – en það breytir bara ekki neinu um atlætið sjálft. Venjulegt fólk fær ekki símtöl utan úr bæ þar sem það er beðið um handrit – jafnvel ítrekað, einsog ég veit dæmi um – og það fær almennt ekki heldur tilnefningar og verðlaun fyrir byrjendaverkin sín. Ekki einu sinni þegar þau eru mjög góð byrjendaverk. Að benda á það gerir ekki lítið úr þeim sannanlegu listrænu afrekum sem sama fólk getur hafa unnið. Annars eru svona tengsl og klíkuskapur og þessi tilfinning fyrir að tilheyra og geta bara hvað sem manni sýnist svolítið flókin – og algengt að listamenn séu einhvern veginn tengdir. Með bakland. Það þarf svolítið egó til þess að nenna þessu og einhvers staðar þarf maður að fá þetta egó. Ég hlustaði á viðtal við Jakob Frímann í morgun og hann var sko ekkert alinn upp af neinum mikils metnum ljóðskáldum. Afi hans var stjórnarformaður SÍS! Það er alvöru mafía. Ég var líka kallaður stofnun í útvarpinu. Mér líst vel á það. Stofnun Eiríks Norðdahl – til höfuðs stofnun Sigurðar Nordal, sem afi Steinars Braga fór fyrir. Ég er ekki alveg með það á hreinu hvað stofnun Sigurðar Nordal gerir reyndar. En stofnun Eiríks Norðdahl mun sérhæfa sig í menningarlegri undirróðursstarfsemi. Einu sinni á ári verður líka sendur maður út af örkinni sem kemur við á menningarsnauðum heimilum og talar við börnin og spyr hvort þau hafi nokkuð verið að skrifa og hvort þau ætli ekki bráðum að fara að senda inn handrit. Það sé vænst mikils af þeim.
Einveran
Í einverunni neyðist ég til þess að horfa á jóladagatalið einn. Ég sleppi samt sænska dagatalinu. Það er ekkert sérstaklega gott í ár. Mikið budget utan um frekar snauða sögu. Og ekkert smá budget heldur – þetta lítur út einsog Game of Thrones fyrir börn. Íslenska dagatalið er frábær saga og sennilega er budgetið bara passlegt – nema líklega hefðu allir mátt fá betur borgað, ég meina það ekki, en það vantar ekkert að gera þetta neitt flottara. Væri ekki betra ef það liti út einsog Game of Thrones eða Gael Garcia Bernal léki stórt aukahlutverk. Það neyðir mig enginn til að horfa á fótbolta og ég sleppti því reyndar alveg þangað til í dag. Ég er svona karl sem horfir á fótbolta þegar stórmótin eru í gangi og þarf aðeins að hafa fyrir því að gíra mig upp. Finnst samt alltaf gaman þegar ég er kominn í stemningu. Katararnir voru ekki að gera okkur stemningsmönnunum neina greiða með verkalýðslöggjöfinni sinni og hommahatrinu. Ég hef ekkert þurft að hafa fyrir því að hunsa mótið. Í dag ákvað ég nú samt að missa ekki af úrslitaleiknum. Til þess að gera langa sögu stutta hef ég aldrei séð annan eins fótboltaleik. Að vísu hafa margir séð fleiri fótboltaleiki en ég – en sérfræðingarnir í sjónvarpinu voru á svipuðum nótum. Eftir leikinn fóru þau að bera saman Messi og Maradona og komust að þeirri niðurstöðu að Messi myndi aldrei njóta sömu ástar í Argentínu og Maradona einfaldlega vegna þess að hann sé ekki nógu breyskur. Nú hefur Messi unnið alla titla sem hann getur unnið og flesta þeirra tvisvar og því kjörið tækifæri til að bæta úr þessu með breyskleikann og verða háður kókaíni. Það er aldrei of seint. Messi er ekki nema fjórum árum eldri en Maradona þegar Maradona lenti í fyrsta leikbanninu fyrir eiturlyfjanotkun.
Menningin nærir börnin sín
Halló? Er einhver þarna? Ég slökkti á samfélagsmiðlum og fréttum – að frátöldum útvarpsfréttum þegar ég man eftir að kveikja. Nú ríkir þögnin ein. Samt er ég með höfuðverk, hvernig sem á því stendur. Nadja fór með börnin suður í dag. Þau halda svo áfram til Svíþjóðar og ég næ þeim í næstu viku, í tæka tíð fyrir jólahátíðina. Ég er eitthvað að vesenast – þreif ofninn og ísskápinn og byrjaði að vinna í gólfhitanum og parkettinu. Ætlaði að halda áfram fram á kvöld en nennti því svo ekki. Fór og keypti mér tælenskt teikavei og byrjaði að horfa á Andor. *** Berglind Ósk skrifar í dag um það sem Svíar kalla kúltúrbörn – það er að segja það fólk sem fæðist með tengsl inn í menningarheiminn, við rithöfunda, útgefendur, gallerista, myndlistarmenn og forstöðumenn helstu menningarstofnana (þess má þá geta hér að kærasti Berglindar, Steinar Bragi, er afabarn fv. forstöðumanns stofnunar Sigurðar Nordal – bara svo það sé allt uppi á borðum hér!). Og raunar fleira – hvað það getur verið erfitt að komast inn í þennan heim og njóta þar sannmælis. Berglind tekur dæmi af því hverjir virðast fá mest pláss í bókablaði Stundarinnar – sem er ritstýrt af afabarni nóbelsskáldsins með dóttur djöflaeyjuskáldsins sér til halds og trausts. Þetta er auðvitað satt og rétt og kunnuglegt. Í þessum heimi þrífst fólk á góðu tengslaneti og visnar án þess. Það fylgja því augljós forréttindi í menningunni að vera af menningarætt – til dæmis bara þau að líklega var því besta í menningunni haldið að manni frá unga aldri, manni fannst sjálfsagt að fólk starfaði við listræna sköpun og hinu að sennilega mætti Halldór Guðmundsson, don Corleone menningarheimsins (eða einhver áþekkur) í fermingarveisluna manns og var hugsanlega byrjaður að spyrja mann um „handrit“ áður en maður var einu sinni búinn að læra alla stafina í stafrófinu. Ekki að ég þekki til af eigin reynslu – ég er að ímynda mér líf sem ég öfundaðist einhvern tíma út í – það næsta sem ég kemst því að kúltúrrisa í fjölskyldunni er að móðurbróðir minn er heiðursfélagi í hinu íslenska blúsfélagi. Hann er að vísu langbesti blúsgítarleikari landsins, en það er önnur saga. Fyrir tuttugu árum, þegar ég var að byrja að gefa út, var ég með mikla minnimáttarkennd gagnvart menningarbörnunum – mér fannst einsog öll ungskáldin sem ég kynntist ættu þjóðskáld að foreldri. Eða í það minnsta bjúrókrat í menntamálaráðuneytinu með árskort í sinfó. Allir höfðu leikið í Skaupinu þegar þeir voru börn, eða barnasýningu í Þjóðleikhúsinu, eða verið í Rokklingunum. Fólk vitnaði í Njálu einsog aðrir sögðu skrítlurnar aftan af Andrésblöðum. Ekki þar fyrir að ég hlaut menningarlegt atlæti yfir meðallagi hjá grunnskólakennaranum og sjómanninum sem ólu mig upp – og voru bæði mikið bókafólk – en þetta var mér samt allt svo fjarri. Þegar ég flutti suður fannst mér alveg nógu ótrúlegt að mæta Ladda á laugaveginum. Að hann væri bara til. Af holdi og blóði. Og ég veit að mörgum menningarbörnunum fannst tengslin við foreldra sína meira vera dragbítur en hitt – einu slagsmálin sem ég hef lent í hófust þegar ég líkti vini mínum við pabba sinn (stórskáld) og hann kýldi mig. Mér finnst það alveg skiljanlegt líka. Ég held að þetta snúist ekki um að neinn vilji halda manni úti – þótt plássið sé sannarlega af skornum skammti. Það er bara einfaldara að taka viðtal við vini sína, fá þá til að skrifa um bækur, vera með pistla og svo framvegis – manni finnst vinir sínir skemmtilegir og gáfaðir og maður veður blint í sjóinn með það hvort eitthvað fólk sem maður þekkir ekki neitt er það líka. Og þar með þurfa utanaðkomandi að hafa tvöfalt fyrir því að skapa sér pláss – og bera hégóma sinn, athyglisþörf sína, á máta sem þeir sem fæðast í kastljósinu þurfa aldrei. Það er líka talsvert aukaálag að teygja sig út fyrir tengslanetið sitt og fyrir slíkt aukaálag fær enginn á þessu landi greitt. Ég lagði talsvert upp úr því á Starafugli að hóa í fólk sem ég þekkti ekki neitt – en samt voru þau sem ég þekkti miklu líklegri til þess að gefa mér jákvætt svar. Og þegar ég var í tímahraki voru það þau sem redduðu mér. Eitt af því sem ég er stoltastur af við Starafugl er samt höfundalistinn – sem má sjá vinstra megin á forsíðunni . Þar eru næstum því 300 nöfn. En það breytir því ekki að þau sem hjálpuðu mér við ritstjórn og voru fastapennar voru flest rækilega í „tengslanetinu“ mínu. Ég er heldur ekki viss um að þetta einskorðist við menninguna – mér sýnist alltaf sama fólkið vera í öllum sjónvarpsþáttum, alltaf sama fólkið hafa skoðanirnar sem skipta þjóðina máli, alltaf sama fólkið vera með einu sönnu greiningarnar á þjóðfélagsástandinu. Það sem er kannski mest áberandi við þá kreðsu er að hún er öll með lögheimili í akstursfjarlægð frá Efstaleitinu. Í raun og veru held ég að menningarliðið sé frekar opið fyrir fólki sem á ekki þjóðleikhússtjóra fyrir föður eða tónskáld fyrir móður – svona heilt yfir að minnsta kosti. En þetta er samt kreðsa með sinn eigin innri kúltúr og maður finnur oft – ég m.a.s. ennþá, þótt ég hafi mitt eigið kapítal og sé byrjaður að kenna börnunum mínum hvernig maður heilsar forsetanum þegar maður tekur á móti íslensku bókmenntaverðlaununum – að maður kann ekki alveg að tala tungumálið. Og þá verður fólk oft dálítið undarlegt á svipinn þegar maður lætur sig samt hafa það að taka til máls.
Uppljóstrun
Ég fæ yfirleitt ekki mikil viðbrögð við þessum færslum mínum, ekki einu sinni þegar þær fá mikinn lestur – sem gerist af og til. Stundum einhver komment á Facebook og svona. Ekki bréf. Ekki sms. Skilaboðaforritin mín loga ekki. En nú bregður svo við að allir og amma hans vilja vita um hvaða hræðilegu bækur ég var að tala hérna í gær. Hver skrifaði svo vitleysislega bók að hún fór fyrir brjóstið á mér og hver skrifaði svo ægilegt torf að jafnvel ég, með allar mínar margfrægu gáfur, botnaði ekkert í henni? Ég hef engum sagt það enn. En er þó svo miskunnsamur við lesendur mína að nefna að sennilega myndu þeir ekki þekkja þær þótt ég nefndi þær. Báðar bækurnar eru nefnilega sænskar og hvorug þeirra neitt heimsfræg – og alls ekki neitt úr íslenska jólabókaflóðinu einsog svo margir virtust hafa ályktað. Þær eru ekki einu sinni nýjar og voru líklega aldrei metsölubækur. Og ekki skáldsögur. Sú tormelta er ljóðabók og sú léttmelta teiknimyndasaga. Ljóðskáldinu hef ég mætur á þótt mér líki ekki þessi bók og teiknimyndasöguhöfundinn hef ég ekki lesið áður. Meira fáið þið ekki að vita enda ætti þetta að vera feykinóg. *** Ég gleymdi víst að nefna það hér í gær að Frankensleikir er kominn á Spotify . Þið getið t.d. bætt honum á jólalagaplaylistann ykkar og gyllt með því jólahátíðina. Eiginlega er alls óvíst hvort jólin koma nokkuð ef þið sleppið því. Svo heyrðist í honum í útvarpinu í gær. *** Nú er ég að gíra mig upp í að slökkva aftur á samfélagsmiðlum. Jólabókaflóðinu er kannski ekki alveg lokið en þetta drífur sig meira og minna á eigin vélarafli síðustu dagana. Ekki það ég hafi verið að gera mikið gagn heldur, en það er önnur saga. Ég verð enn sem áður hér á blogginu – en lesturinn fer vel að merkja alltaf niður í svona tíu prósent af því sem hann annars er þegar ég slekk á ófrenjunni. Facebook er gáttin sem allir nota til þess að finna sér lesefni og því sem ekki er deilt þar má segja að eigi sér stað í bakherbergjum internetsins. Ef ekki bara bakherbergjum veruleikans. Ef það á sér yfirleitt stað. *** Annars er ekki allt slæmt við algóritmann. Í dag benti hann mér á skemmtilegt viðtal við Fran Lebowitz í Guardian, lista Book Riot yfir 30 bestu bækur ársins (spoiler, 27 eru eftir konur og meirihluti karlabókanna – þ.e.a.s. 2 af 3 – eru hinseginsögur; allar eru amerískar og engin er þýdd; fimm eru „hefðbundnar“ fagurbókmenntir en fantasían dómínerar). Já og Guardiangrein um að listamönnum úr verkalýðsstétt hafi fækkað á síðustu fimmtíu árum – í takti við fækkun fólks úr verkalýðsstétt, en samt þannig að maður er enn þrisvar sinnum ólíklegri til þess að hasla sér völl í tónlist, bókmenntum og myndlist ef foreldrar manns eru úr verkalýðsstétt. Og eiginlega hefur maður aðeins minni líkur á að ná því í dag en 1970. Svo fann ég umræðu um neikvæða dóma í sænskumælandi Finnlandi – sem eru til umræðu nú eftir að ljósmyndasýning Davids Lynch á Helsingfors Fotofestival fékk mikla útreið (mér skildist á persónulegum samræðum við finnskan vin á dögunum að þar í landi væri almennt talsverð umræða um það þessas dagana hvernig fólk sem er frægt í einum bransa nýtir þá frægð til þess að fá athygli í öðrum bransa). Útgangspunkturinn í finnsku umræðunni var að neikvæð krítík hverfi þegar krítíkerarnir upplifi sjálfir að listformið sem þeir rýna í – og hafa gjarnan ást á – sé sjálft í útrýmingarhættu, en þegar listformið standi sterkt leyfi gagnrýnendur sér heldur að slátra hægri vinstri ef þess gerist þörf. Jákvæðnin sé eins konar vopn til þess að endurvekja áhuga fólks á list í útrýmingarhættu. Ég gat ekki varist að setja þetta í samhengi við stjörnuregn haustsins og þá fullyrðingu, sem ég hef séð ítrekað haldið fram, að það sé tilkomið vegna þess að skáldsagan sé svo sterk í ár – þetta sé svo sterkt haust. Alveg burtséð frá gæðum verkanna má velta því fyrir sér hvort jákvæðnin í dómunum sé til marks um einhverja tilvistarkrísu bókmenntanna. *** Þetta verður síðasta færslan sem ég deili á samfélagsmiðlum í bili. En ykkur er alveg óhætt að líta hér inn á morgun líka. Og hinn. Og héðan gætuð þið haldið bloggrúntinum áfram yfir til Brynjars , Ármanns eða Berglindar – og jafnvel Snæbjörns , ef hann afþaggar einhvern tíma í sjálfum sér, og Ásgeirs , ef hann er ekki hættur. Zuckerberg verður ekki ánægður með að þið sleppið milliliðnum en við hin tökum ykkur samt fagnandi að venju. Allavegana ég.
Tvær hræðilegar bækur
Á dögunum las ég tvær bækur. Það skiptir ekki máli hvaða tvær bækur. Sú fyrri var einhvern veginn þannig að mér fannst hún misbjóða vitsmunum mínum með því að útskýra stöðugt fyrir mér eitthvað sem mér þótti algerlega sjálfsagt – eða enn verr, bera eitthvað á borð einsog það væri djúpvitur viska sem var augljóst að höfundurinn hafði ekki hugsað neitt um og var ekki á leiðinni að fara að íhuga neitt heldur. Svona einsog hræðilegustu málshættir. Alveg hræðilegt þunnildi, fannst mér, en ég hugsaði á sama tíma að ef ég hefði lesið hana þegar ég var á þrítugsaldri hefði mér kannski fundist hún betri. Henni var augljóslega beint að þeim aldurshópi – voða mikið tilvistarkrísudjamm og kærustuparavesen. Í hinni bókinni var mikið frumskrifað torf en líka stöðugt vitnað í einhverja stærðfræðinga og rökfræðinga og þungaviktarheimspekinga til þess að koma boðskapnum á framfæri – en ég fann tilfinnanlega fyrir því að mig skorti bæði vitsmuni og sennilega líka metnað til þess að komast til botns í því sem verið var að segja. Ég gæti ekki einu sinni sagt ykkur, svo vel væri, um hvað hún var. Þetta er, vona ég, ekki bara spurning um vitsmuni og metnað heldur traust. Treysti ég því að það sem bókin ætlar að segja mér með torfinu sé erfiðisins virði. Sumum finnst að vísu erfiðið sjálft vera verðlaunin og það er ekki alveg úr lausu lofti gripið – það er eitthvað í því – en ég myndi gjarna vilja vita það fyrirfram. Því þetta er líka stundum einsog einhverjar intellektúal pósur. Ég þarf að finna einhverja samúð með prójektinu til þess að leggja þetta á mig. Og ég þarf kannski líka að hafa einhverja tilfinningu fyrir því fyrirfram út í hvað ég er að leggja. Allavega. Ég veit ekki alveg hvert ég er að fara með þessu, annað en að segja að það er ýmislegt sem þarf til að bækur hitti mann í hjartastað.